151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ríkið er bara í sömu sveit sett og sveitarfélög varðandi það að við eigum enga peningavél. Við erum bara með sjálfstæðan seðlabanka, við prentum enga peninga. Við þurfum að taka lán, við þurfum að borga þessi lán til baka. Og af því að hér er minnst á sveiflujafnara og efnahagssamdráttinn þá eru sveitarfélögin betur varin en ríkið, m.a. vegna þess að ríkið tekur á sig að fjármagna að fullu persónuafsláttinn og þau fá t.d. útsvar af atvinnuleysisbótum. Ég ætla á engan hátt að gera lítið úr því að tekjuáhrifin eru gríðarleg fyrir sveitarfélögin en þau eru samt sem áður í betra skjóli en ríkið hvað þann þátt snertir. Um þetta er m.a. fjallað í skýrslunni sem kom út í sumar.

En við höfum verið að grípa til sérstakra aðgerða. Lækkun tryggingagjalds skiptir sveitarfélögin gríðarlega miklu máli. Framlenging á endurgreiðslu virðisaukaskatts skiptir þau gríðarlega miklu máli. Styrkur til fráveituframkvæmda skiptir máli og styrkir til að efla tómstundastarf hjá sveitarfélögum. Allt skiptir þetta miklu máli. Þetta eru margir milljarðar sem við erum að ráðstafa sérstaklega. (Forseti hringir.) Og þetta er fyrir utan það sem við höfðum áður ákveðið að gera.