151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:14]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun sem tekur að mestu til næsta kjörtímabils en það er alltaf mikilvægt, skynsamlegt, eðlilegt og auðvitað lögum samkvæmt að horft sé fram í tímann og menn séu ekki bundnir af kjörtímabilum. Að sumu leyti geta þau oft hamlað því að menn móti skýra framtíðarsýn. Ég held að þetta fyrirkomulag sé í sjálfu sér mjög gott.

Vandi þeirra sem reyna að horfa fram í tímann er að átta sig á þeim forsendum sem liggja til grundvallar. Ég hef áhyggjur af því að sumar þær forsendur sem lagðar eru hér til grundvallar séu í bjartsýnni kantinum að mörgu leyti. Og af hverju segi ég það? Það er m.a. vegna þess að mikil þyngd er í því að ferðaþjónustan nái vopnum sínum hratt og örugglega til þess að gera þegar á miðju næsta ári. Eins og staðan blasir við manni akkúrat núna, bæði hér á landi og erlendis, óttast ég — ég vona svo sannarlega að það rætist ekki en óttast það — að frekari tafir verði á því að ferðaþjónustan taki við sér í þeim mæli að hún geti leikið jafn stórt hlutverk og forsendur hér gera ráð fyrir.

Annað sem tengist þessu eru almennar horfur varðandi atvinnuleysið, að það verði erfitt viðfangs ef ferðaþjónustan tekur ekki við sér. Við viljum öll reyna að gera sem best til að draga úr því atvinnuleysi. Þá kem ég kannski að því sem okkur mörgum hefur verið tíðrætt um og við í Viðreisn höfum talað dálítið mikið fyrir, þ.e. framþungi framkvæmda og verkefna. Ég vil kannski ekki gera alveg skýran greinarmun á því, frekar en mér sýnist ríkisstjórnin gera, hvað eru verkefni og hvað eru verklegar framkvæmdir. Það er mjög margt hægt að gera sem getur skilað okkur fram á við og verið arðsamar fjárfestingar. Þegar ríkið stígur inn í efnahagslífið með kröftugum hætti er auðvitað lykilatriði og grunnforsenda að það sem ráðist er í sé arðbært. Það er líka mjög mikilvægt að það sé gert eins tímanlega og nokkur kostur er.

Það sem mér finnst svolítið skorta á í áætluninni, kannski á það eftir að koma betur í ljós í umræðum í hv. fjárlaganefnd, er hvað sé hægt að gera strax, bæði í verklegum framkvæmdum og ekki síður í arðsömum verkefnum sem hafa jafnvel eftir atvikum setið á hakanum. Verkefni sem eru nauðsynlegir innviðir í opinberum rekstri hafa setið á hakanum en væri hægt að ráðast í núna og skapa atvinnu.

Ég vil í því sambandi benda á nýlega tilkynningu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sjóðurinn hefur að nokkru leyti snúið við blaðinu og hvetur ríkari lönd í heiminum til að gera mikið af því að fjárfesta í arðbærum verkefnum og framkvæmdum. Öfugt við það sem margoft hefur verið sagt hjá þeim ágæta sjóði segja þeir: Nú er ekki rétti tíminn til að hafa allt of miklar áhyggjur af skuldsetningu ríkissjóða ef ráðist er í arðbærar fjárfestingar vegna þess að vextir eru nú í sögulegu lágmarki og því kjörið tækifæri til að takast á við vandann. Þess vegna held ég að í áætlun af þessu tagi, fjárlögum næsta árs og jafnvel því sem gerist á þessu ári, sé mjög mikilvægt að tekið sé mið af þessu og við reynum að grípa tækifærið til að ráðast í arðbærar fjárfestingar og verkefni og skapa þannig atvinnutækifæri og búa í haginn fyrir framtíðina.

Það má líka spyrja sig hvort það sé raunhæft markmið í ljósi alls og alls að stefna að því að geta tekið fjármálareglurnar að fullu upp í lok þessarar áætlunar. Ég leyfi mér að efast um að það sé raunhæft. Og það kann að vera að það sé jafnvel ekki skynsamlegt í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við og allrar þeirrar óvissu sem er. Auðvitað vonar maður að þetta gangi allt mjög vel. Sem betur fer eru flestir spáaðilar á því að kreppan verði skammvinn. En við vitum það auðvitað ekki. Það hangir allt á því að bóluefni finnist og ekki síður á því að þegar það loksins finnst sé hægt að dreifa því með skjótum hætti. Í þessu samhengi t.d. er mjög mikilvægt að horfa til þess, og ég trúi ekki öðru og treysti því raunar, að um leið og bóluefni finnst verði gengið mjög markvisst í það að bólusetja þjóðina með skipulegum hætti til að mannlífið komist í eðlilegt horf og við getum byrjað að taka við ferðamönnum. Þetta eru atriði sem skipta máli.

Það er mikið talað um framtíðina, nýsköpun og þróun og það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Ég hef oft gert það að umtalsefni. Ég tel mjög skynsamlegt að við hröðum því eins og við getum að koma fjármagni út í þær greinar sem núna skapa atvinnu og byggja undir framtíðina fyrir okkur. Þess vegna tel ég t.d. að ekki sé skynsamlegt að byrja strax að draga úr skattafslætti vegna þróunarverkefna eins og gert er ráð fyrir í fjármálaáætluninni. Ég held að það sé óskynsamlegt. Þó að gera mætti betur hefur miðað áfram í því að efla áhuga ungs fólks á verk- og tækninámi og það fólk mun skila sér út í samfélagið.

Eitt atriði er kannski ekki stórt í stóra samhenginu en ég vil engu að síður nefna það hér í þessari umferð. Ég tek eftir því að það á að fara að lækka framlög til vinnustaðanámssjóðsins. Og hvað er vinnustaðanámssjóður? Jú, það er sjóður sem er ætlaður til að aðstoða fyrirtæki við að taka nema á samning. Ef við erum að unga út, sem aldrei fyrr, fólki sem hefur lagt stund á iðnnám finnst mér skjóta skökku við að akkúrat þegar það hrúgast út úr skólanum og er að ljúka sínu námi sé dregið úr möguleikum þess á því að komast á samning til að geta klárað sitt nám og myndað tengsl við fyrirtækin. Mér finnst þetta skjóta mjög skökku við.

Sá tími sem hér gefst er skammur þannig að ekki er hægt að fara djúpt í málin. Það verður væntanlega gert þegar ráðherrar koma hingað og ræða sína málaflokka og sitja fyrir svörum. Síðan þarf auðvitað að taka þetta mjög til skoðunar í hv. fjárlaganefnd og ég er viss um að það verður gert. Og eins og ég lauk orðum mínum líka á í umræðu um fjárlögin treysti ég því að nefndin muni skoða þetta vel og það verði hlustað á öll sjónarmið og tekið tillit til þeirra því að samstarf og samvinna og samráð er það besta sem við getum gert núna til að ná sameiginlega eins góðum árangri og nokkur kostur er.