151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:18]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Svar mitt við fyrri spurningu hans er að mörgu leyti keimlíkt svari hv. formanns fjárlaganefndar við svipaðri spurningu áðan. Ég held að það sé ábyrgt, og veit að það er ábyrgt af ríkisstjórninni, að flagga þeim markmiðum hér að stöðva verði skuldasöfnun, að hún fari ekki yfir ríflega 60% af landsframleiðslu. Það þýðir allt að 40 milljarða kr. niðurskurð, ef við getum orðað það með þeim hætti, á ári til þess að ná því. Ég bind miklar vonir við, og auðvitað eru það bara vonir, það er engin vissa í því, að til þess þurfi ekki að koma heldur nái hagkerfið að vaxa af slíkum krafti að til þess þurfi ekki að grípa. Það er stefna okkar og markmið að ná því. Þótt ég segi að ég hafi ekki vissu fyrir því þá standa öll færi til þess að svo verði. Við erum í öllum aðgerðum okkar að verja framleiðslutækin. Allar aðgerðir okkar miða að því að við getum átt öfluga viðspyrnu.

Varðandi lánakjör og það sem hv. þingmaður nefnir í seinni spurningu sinni, um samspil lántökunnar við peningamálastefnuna og möguleika á einkamarkaði til að fjármagna mikilvæg eða arðbær verkefni, er sjálfsagt að við ræðum það sérstaklega í meðförum fjárlaganefndar á þessum þingmálum tveimur. En sú sérstaka staða er uppi í dag að engin merki eru um að vextir fari hækkandi. Almennt eru góð kjör á lánum í dag, ef einhvern tímann er hægt að tala um góð kjör á lánum. Vaxtastig er mjög lágt þannig að (Forseti hringir.) ég hef kannski ekki sömu áhyggjur af þeim hluta (Forseti hringir.) og hv. þingmaður nefndi í sínu fyrra andsvari.