151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mér finnst bara mjög mikilvægt að svara því sem að mér er beint og hef því opnað svarið sem hv. þingmaður vitnaði hér til um þessa 37 hópa. Og af því að hv. þingmaður kom hér upp í seinna svar og sagði að ekki væri á bætandi alla þessa hópa sem eru starfandi hjá Stjórnarráðinu get ég glatt hv. þingmann með því að megnið af þessum hópum hefur lokið störfum og skilað þeim árangri sem ég fór yfir hér áðan.

Og af því að við erum að ræða um jafnréttismálin vil ég nefna það sérstaklega að nokkrir af þeim hópum sem birtast í þessu svari eru hópar sem hafa verið að undirbúa sérfræðinefndir sem voru skipaðar til að undirbúa frumvörp um börn með ódæmigerð kyneinkenni. Þeim frumvörpum hefur verið dreift á Alþingi og ég vona svo sannarlega að Alþingi muni taka þau til umræðu. Einnig eru þar hópar sem hafa einmitt verið að vinna að endurskoðun jafnréttislaga. Og af því að hv. þingmaður gerir þau sérstaklega að umræðuefni hér þá er rétt að ég legg til breytingu í því sem varðar kærunefnd jafnréttismála, þ.e. ég tel að það fari betur á því að þar sem sá möguleiki er fyrir hendi í lögum að ógilda úrskurði sé það ekki eingöngu gagnvart einstaklingi heldur líka gagnvart viðkomandi nefnd. Raunar var hefðin sú í íslensku stjórnkerfi til 1997 að nefndunum var í raun og veru stefnt, eftir því sem mér hefur verið greint frá af mér löglærðara fólki. Ég tel að þetta muni vera mjög mikilvægt ákvæði til að styðja við kynjajafnrétti í jafnréttislögum.

Ég vonast líka til að jafnréttislagafrumvörpin, sem sömuleiðis hefur verið dreift hér á þingi, fái góða umræðu og leiði af sér framfarir á sviði kynjajafnréttismála. Ég er alveg viss um að við hv. þingmaður erum mjög sammála því að mikil þörf er á úrbótum í þeim málaflokki eins og öðrum.

Á síðasta þingi var til að mynda samþykkt mjög mikilvæg forvarnaáætlun. Það verður eitt stærsta verkefnið núna fram undan (Forseti hringir.) að vinna að eftirfylgni og framkvæmd hennar. Hún snýst um forvarnir gegn kynbundnu (Forseti hringir.) ofbeldi og áreitni sem ég tel raunar eina stærstu (Forseti hringir.) meinsemdina þegar kemur að kynjajafnréttismálum á Íslandi.