151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég get ekki sagt að svar ráðherrans hafi komið mér á óvart. En ég tel að við ættum einmitt að greiða hærra hlutfall fyrir aðgang að auðlindinni sem er fénýtt með þessum hætti. Þegar við horfum til þeirra talna sem ég taldi upp í fyrri ræðu minni þá er ég mjög hissa á þessari afstöðu hæstv. ráðherrans. Að mínu áliti erum við í raun að rétta þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem svo vel standa fjárhagsaðstoð úr ríkissjóði með allt of lágum veiðigjöldum.

En að öðru máli. Hvað finnst hæstv. ráðherra um þróun lífeyrisgreiðslna í samanburði við þróun lágmarkstekjutryggingar samkvæmt lífskjarasamningnum? Munurinn á greiðslu almannatrygginga, hvort sem er til aldraðra eða öryrkja, og á lágmarkstekjutryggingunni samkvæmt lífskjarasamningnum, er í ár tæpar 80.000 kr. á mánuði en verður á næsta ári 86.000 kr. á mánuði með 3,6% hækkun á greiðslum almannatrygginga samkvæmt forsendum fjárlagafrumvarpsins og hækkun lágmarkstekjutryggingar samkvæmt lífskjarasamningnum. Verulega hefur dregið í sundur með lífeyri og launum á undanförnum árum og enn dregur í sundur og mun halda áfram á meðan ekki er tekið á rót vandans.

Norræna ráðherranefndin gaf út skýrslu fyrir tveimur árum eða svo um hvernig ójöfnuður hefur vaxið á Norðurlöndunum og hvað þyrfti að gera til að vinna gegn ójöfnuði. Aðalatriðið er að stjórnvöld sjái til þess að bætur almannatrygginga, barnabætur og húsnæðisbætur fylgi raunverulegri launaþróun og að gjaldtaka í velferðarkerfunum sé sem minnst.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það standi til að breyta 69. gr. laga um almannatryggingar þannig að stöðva megi þá gliðnun sem er á milli launamanna og þeirra sem eiga allt sitt undir greiðslu almannatrygginga.