151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður forðaðist að svara spurningum mínum (BLG: Ég er að spyrja.) um sveitarfélögin. Ef það er skýr stefna og gott að fara í þá átt en menn segja: Ég er á móti þessum leiðum, þá verða þeir að koma með einhverjar aðrar leiðir. Það gerði hv. þingmaður ekki.

Varðandi það að tryggja samskiptaleiðir held ég að það sé mjög auðvelt að útskýra það fyrir öllum landsmönnum, öllum almenningi í landinu, öllum fyrirtækjunum og vegna tækifæranna sem hér liggja undir, að það sé mjög skynsamleg fjárfesting að fara í þriðja stóra, skulum við segja, sæstrenginn — þá er ég ekki að gleyma þeim fjórða sem fer til Grænlands — vegna þess að þá eykst öryggið umtalsvert. Nú þori ég ekki alveg að fara með tölurnar en mig minnir að við séum að tala um að fara úr 99,5 upp í 99,9 eða svo. Það er lykilatriðið í öryggi. Auðvitað er öll okkar vinna í kringum netöryggi og kannski meira samskiptaöryggi komin á ásættanlegan stað, skulum við segja, en um leið vaxa tækifæri í því að byggja hér upp öflugri gagnaversiðnað eða aðra starfsemi sem lýtur að því. Þess vegna held ég að það sé mjög auðvelt að útskýra fyrir almenningi í landinu að þetta sé skynsamleg fjárfesting.

Það er líka auðvelt að útskýra, held ég, fyrir almenningi í landinu og fyrirtækjunum að það sé skynsamlegt að gera þetta á hendi ríkisins sem er búið að eignast Farice að fullu, það hefur gerst á tímabili þessarar ríkisstjórnar, til að tryggja samkeppni. Kaflinn þarna á milli verður grunneining í eigu ríkisins en síðan verður samkeppni við endastöðvar í tæknilausnum fyrirtækjanna en ekki einhvers konar þvinguð einokun á strengnum eða fákeppni. (Forseti hringir.)

Ég held að ég geti útskýrt mjög vel að þetta sé mjög skynsamleg fjárfesting. Auðvitað þarf að fjármagna hana. Það verður væntanlega gert bæði með lántökum, með auknu eigin fé og hugsanlega gjaldskrárhækkunum eins og hv. þingmaður nefndi.