151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:20]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður víkur hér að, það eru áskoranir í flugi. Á þessum tímum er lægð í flugi og hér innan lands hefur fækkun farþega numið, ef ég man rétt, um 50%. Við höfum gripið til þess ráðs, ríkið, að tryggja lágmarksþjónustu á Covid-tímum í almenningssamgöngukerfinu með því að styðja við flug og höfum gert samninga þar að lútandi við alla þá sem hafa flogið innan lands á mismunandi velli. Ef við erum að fara inn í slíkt ástand núna þurfum við líka að horfa til þess. Við höfum verið með augun á þessum bolta. Ég nefndi áðan þær gríðarlegu hækkanir sem við erum með í vegakerfinu, þar sem hækkun milli ára er 31% og á höfnunum 41% en flugvellirnir hækka um 57%. Frá árinu 2016 nemur hækkunin 107%. Þannig að við erum búin að spýta í lófana og gera fullt á þessu ári og ætlum að gera enn meira á næsta ári, byggja upp flughlað á Akureyri og á Egilsstöðum og styrkja það hér í Reykjavík, fara í 100 millj. kr. framkvæmdir í viðhaldi á Reykjavíkurflugvelli og víða hringinn í kringum landið. Við getum eiginlega talið allflesta flugvelli upp. Meira að segja gamalt verkefni, að malbika bílastæði fyrir utan Ísafjarðarflugvöll, er búið. Beðið hafði verið eftir því í 40 ár og við gerðum það í ár. Þannig horfir ýmislegt við og við höfum verið að vinna samkvæmt áætlunum sem Alþingi hefur samþykkt með samgönguáætlun. Samstaða hefur náðst um að efla og auka innanlandsflugið (Forseti hringir.) og það höfum við gert í ráðuneytinu, þrátt fyrir að ekki hafi allir unnið með okkur í því.