151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Varðandi það að þrýsta á sveitarfélög að koma til móts við fæðingarorlofið og bjóða upp á leikskóla frá 12 mánaða aldri þá flækir það kannski málið að við erum að tala um lagabreytingar sem taka eiga gildi nú um áramót. Þannig að það verður eitthvað að grípa þau börn sem fæðast á næsta ári þegar þau verða 12 mánaða gömul ári síðar. Það er spurning hvort þrýstingur einn og sér dugi eða hvort bretta þurfi upp ermarnar og gera eitthvað.

Mig langar í seinni spurningu minni að spyrja ráðherrann aðeins út í barnabætur og sérstaklega það markmið áætlunarinnar að auka einföldun og skilvirkni á barnabótakerfinu sem þar kemur fram. Mig langar að velta því upp hvort það sé yfir höfuð nógu metnaðarfullt markmið, vegna þess að við þekkjum það að allt of lengi hefur barnabótakerfið verið að koðna niður. Nærtækast er að benda á skýrsluna Barnabætur á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin, sem BSRB lét dr. Kolbein Stefánsson vinna, sem sýndi að hér á landi eru skerðingar meiri neðar í tekjustiganum en annars staðar á Norðurlöndunum. þannig að barnabæturnar koma ekki inn af þeim krafti sem þær þurfa að gera. Það endurspeglast í því að flest undanfarin ár hefur ekki einu sinni náðst að koma út þeim peningum sem eru ætlaðir til kerfisins í fjárlögum. Talandi um kerfi sem þarf að endurreisa, virðulegur forseti.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Frekar en að, með leyfi forseta, auka einföldun og skilvirkni á barnabótakerfinu, þarf ekki hreinlega að endurskoða það frá grunni og setja þá vinnu af stað með aðilum vinnumarkaðarins?