151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:19]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að vissulega hefur starfsemi og eðli löggæslunnar í landinu tekið breytingum. Starfsemin tekur sífellt breytingum og þarf sífellt að taka mið af þeim veruleika sem blasir við hverju sinni og breyttum samfélagsháttum. Fjármunir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hækka einungis um 100–200 millj. kr. á hverju ári næstu tvö árin. Það er annað í þessari þróun sem er áhyggjuefni og það er að menntuðum lögreglumönnum hefur fækkað mikið. Ef fjöldi ómenntaðra lögreglumanna er tekinn með þá virðist fjöldinn standa í stað í lögreglunni og hlutfall ómenntaðra lögreglumanna og lögreglunema í afleysingum hefur hækkað mikið síðustu árin en árið 2019 var það tæp 16%.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra hvort í því atvinnuástandi sem nú ríkir sé ekki tilvalið að setja aukinn kraft í það að efla kennslu í lögreglufræðum til að fjölga menntuðum lögreglumönnum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé á döfinni að setja kraft í það og setja meiri fjármuni í það og vísa þá til svars hæstv. ráðherra við undangenginni fyrirspurn um nauðsyn þess að mæta flóknum veruleika með aukinni menntun lögreglumanna.