151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er auðvitað viðvarandi vandamál ef aðilar fá ekki úrlausn sinna mála fyrir dómstólum fyrr en langt um líður og hér þarf auðvitað að fylgjast vel með. Við fylgjumst vel með málsmeðferðartíma dómstólanna og höfum sérstaklega lagt áherslu á það að hann fari ekki mikið úr skorðum vegna Covid-19 og samkomutakmarkana og ýmissa takmarkana sem hafa verið í samfélaginu síðastliðna mánuði. Þess vegna lagði ég fram breytingar um ýmsa rafræna meðferð mála hjá dómstólum og mun leggja til að sú bráðabirgðaheimild verði framlengd enda hefur hún gefist afar vel til þess að halda þeim málafjölda sem mögulegt er hjá dómstólunum í einhverjum takti við það sem venjulegt gerist, án þess að hér væri heimsfaraldur. Ég mun auðvitað vinna áfram að þessu enda er málsmeðferðartími kynferðisbrota eitthvað sem þarf virkilega að skoða.