151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísaði hér í nokkur lönd sem hafa tekið upp innra landamæraeftirlit en það er aðeins hægt í örstuttan tíma undir mjög ströngum reglum Schengen-ríkjanna vegna sérstakra aðstæðna. Það hefur verið gert að einhverju marki þegar við vorum að koma upp sóttvarnaráðstöfunum á landamærum okkar, en er ekki hægt til langs tíma.

Hv. þingmaður vísaði síðan í umræður um bótafjárhæðir, sem eru auðvitað mjög margvíslegar. Eitt frumvarp á þingmálaskrá minni er um bótafjárhæðir þar sem verið er að stíga fyrsta skrefið í að reyna að flýta uppgjöri bóta og fækka dómsmálum vegna ágreinings. Þetta eru umbætur í þeim málum og verið að auka hagræðingu í þeim fyrir þolendur. Þarna er verið einfalda alla meðferð bótakrafna í ákveðnum málum. Hv. þingmaður er að tala um launaþróun og annað sem þarf að leggjast betur í og er eitthvað sem við höfum ekki komist í, m.a. vegna tafa á ýmsum málum í ráðuneytinu vegna Covid, en ég tel að þetta frumvarp sem einfaldar þessi bótamál sé til bóta og sé gott fyrsta skref í breytingum á skaðabótalögum.