151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um álframleiðslu og hvar sé best að koma henni fyrir í heiminum. Ég vil kannski helst í þessu samhengi segja að á Íslandi fara tæp 80% af raforkunni sem hér er framleidd í það að framleiða ál og ég tel að það sé nóg gert í því eins og staðan er í dag. Við eigum ekki að fjölga álverum á Íslandi. Það er ekki sú sýn sem ég hef fyrir Ísland og þarf kannski ekki að koma á óvart.

Varðandi þetta stærra alheimssamhengi þá er ál mjög mikilvægur málmur, líkt og hv. þingmaður nefnir. En hvar á að framleiða það? Það er góð spurning. Það er framleitt víða um heim. Er áhyggjuefni að það færist frá Evrópu og til annarra staða? Það getur verið það í einhverjum tilfellum. Ég ætla svo sem ekki að úttala mig um það nákvæmlega en vil bara benda sérstaklega á þessa staðreynd, hve mikið af okkar orku fer í framleiðslu á áli og það hafa margir sagt að eggin mættu vera í fleiri körfum þegar kemur að raforkuframleiðslunni en er hjá okkur. Við verðum að sjá hvernig þessi mál þróast.