151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður, takk fyrir innleggið í umræðuna. Ég tek innilega undir að landnotkunarþátturinn skipti miklu þó svo að hann heyri ekki beint undir Parísarsamkomulagið varðandi losunartölur. Hann er þó tekinn fyrir í samkomulaginu við Evrópusambandið, að við þurfum árið 2030 að vera með plús í kladdanum, þ.e. frekar með bindingu en losun miðað við viðmiðunarár, sem verður væntanlega 2005–2007 eða eitthvað slíkt. Ég vonast til að við getum staðið við það, Íslendingar, en þar skiptir gríðarlega miklu máli að efla rannsóknir og vöktun á þessum þáttum, sem ekki hefur verið nægjanlega gott. Þess vegna er ánægjulegt að segja frá því að nú fara um 100 millj. kr. í að efla stofnanir okkar, Landgræðsluna, Skógræktina og Umhverfisstofnun, til að geta svarað þessum spurningum.

Síðan fara 5 milljarðar á þessu tímabili fjármálaáætlunarinnar í kolefnisbindingu. Það er meira en við sögðumst ætla að gera á fyrra fimm ára tímabili, 2019–2023. En síðan er náttúrlega það sem skiptir mjög miklu máli líka og hv. þingmaður kemur inn á, að við eigum gott samtal við landeigendur, ekki síst bændur. Þar er grunnurinn verkefnið GróLind, sem er að mæla og meta hvert ástand þessara vistkerfa er þannig að við getum tekið ákvarðanir í sameiningu um hvað eigi að gera við land sem er illa farið, og unnið okkur eftir áætlun um slíkt.