Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin. Ég get ekki verið annað en innilega sammála honum. Ég vona heitt og innilega að við séum komin á þann stað að við séum ekki bara að hugsa um þetta heldur farin að framkvæma. Og við erum að framkvæma. Við erum t.d. með gasframleiðslu uppi í Gufunesi. Og við brennum allt gasið, sem er auðvitað alveg stórfurðulegt. Við erum að framleiða gas en við nýtum það ekki nema til að brenna það út í loftið.

Þess vegna vil ég í framhaldi af því tala um að nú á að setja á urðunarskatt. Í fjármálaáætlun segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að leggja fram frumvarp á Alþingi haustið 2020 þar sem lagður verður skattur á urðun almenns úrgangs, svokallaður grænn skattur. Ráðgert er að tekjum af skattinum verði varið til verkefna til að styðja við hringrásarhagkerfið.“

Telur ráðherra að rétt sé að skattleggja almenning til að ná fram markmiðum á málefnasviðinu? Urðunarskatturinn er neysluskattur. Við vitum af fenginni reynslu að neysluskattar bitna hlutfallslega verst á þeim sem hafa minnstar ráðstöfunartekjur. Er ekki nærtækara að grípa til aðgerða gagnvart þeim sem menga mest í stað þess að leggja skatt á allt samfélagið?

Í þessu samhengi vil ég benda á að í umsögn Sorpu um urðunarskatt frá síðustu áramótum kom fram að verði sá skattur lagður á þýði það 62% hækkun urðunargjalda hjá Sorpu. Gjöldunum verður ekki mætt öðruvísi en með hækkun gjaldskrár og bæði íbúar og fyrirtæki þurfa að greiða. Það er stór hópur þarna úti sem hefur bara ekki efni á meiri sköttum, hefur ekki einu sinni efni á því að lifa. Og ég spyr: Er ekki kominn tími til að við hlífum þessum hópi við skattheimtu og sjáum til þess að við sköttum þá sem eru virkilega að eyða og hafa efni á því.