151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:19]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég fagna mjög þeim áherslum sem ríkisstjórnin leggur á nýsköpun og þróun. Það er til fyrirmyndar og við erum hjartanlega sammála um það. Það sem ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra út í, af því að við erum núna í mjög sérstökum aðstæðum, er hvort ekki sé skynsamlegt að líta til þess og auka akkúrat núna fjármuni sem fara í þessi verkefni. Rétt áðan var verið að tala um Tækniþróunarsjóð og árangurshlutfall þar. Þar var hafnað mjög mörgum góðum umsóknum.

Ég vil líka nefna þá miklu þörf sem er, sem endurspeglast t.d. í því að 26 fyrirtæki sóttu um í svokallaðri Stuðnings-Kríu. Niðurstaðan er sú að ef þau geta öll staðið við skilmála sína þá vantar 621 millj. kr. inn í það úrræði til að hægt sé að mæta þeim umsóknum sem samþykktar hafa verið. Því að það er aldrei nógsamlega ítrekað hvað það er mikilvægt að þessi keðja sé órofin og það sé fyrirsjáanleiki til einhvers tíma.

Þess vegna vil ég líka spyrja hvort ráðherra muni beita sér fyrir því í fjáraukalögum að setja aukið fé í Tækniþróunarsjóð núna þannig að hægt sé að úthluta nú í haust, hvort hún muni beita sér fyrir því að það komi í fjáraukalögum vegna Stuðnings-Kríu, og að síðustu hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarstyrkja verði framlengdar.

Nú er ljóst að þessi kreppa mun vara lengur en búist var við á sínum tíma þegar úrræðin voru innleidd.