151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

útvarpsgjald og staða einkarekinna fjölmiðla.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverð hugmynd en hún er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Ég held að hún ein og sér myndi vekja upp margar grundvallarspurningar sem við þyrftum fyrst að taka afstöðu til, nefnilega spurninguna: Eigum við að reka almannaútvarp og hvernig eigum við að fjármagna það? Það er ágætt að fá þá umræðu. Sitt sýnist hverjum um umfang þeirrar starfsemi, þótt mér þyki sem breið samstaða sé um að almannaútvarp þurfi að gegna ákveðnu lykilhlutverki. Þetta snýst sömuleiðis ekki bara um grundvallarspurninguna hvort við eigum að reka slíkt útvarp heldur líka hvernig við eigum að gera það og fjármagna það.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að átt hafi sér stað ákveðið rof í þeirri tengingu sem hv. þingmaður nefnir hérna, sem er framlag hvers og eins einstaklings og lögaðila á Íslandi til þessa reksturs, með því að við hættum að innheimta gjaldið sérstaklega. Það voru eflaust ýmsar praktískar ástæður fyrir því en ég held að það hafi slitnað þetta samband sem oft er mikilvægt að sé til staðar, að fólk viti að það sé að leggja eitthvað af mörkum, borga í hverjum mánuði o.s.frv. Ég held að það sé líka galli á þessu fyrirkomulagi sem við erum með núna. Ef hér er einhver hagsveifla og það fjölgar t.d. fyrirtækjum í landinu, þá aukast sjálfkrafa framlögin til Ríkisútvarpsins án þess að það sé einhver rökbundin nauðsyn til þess eða hægt sé að færa fyrir því rök að það eitt að stofnuð eru 1.000 ný fyrirtæki eða 1.000 nýjar kennitölur á fyrirtækjaskrá eigi að leiða til þess að verkefnum Ríkisútvarpsins fjölgi einhvern veginn eða verði umfangsmeiri. Þarna held ég að sé ákveðin rökleysa í fyrirkomulaginu.

Eftir situr að við þurfum að halda áfram að ræða (Forseti hringir.) þá stöðu sem Ríkisútvarpið er í gagnvart fjölmiðlamarkaðnum að öðru leyti og ég held að auglýsingarnar séu stór þáttur sem við þurfum að taka til frekari umræðu.