151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

útgjöld til heilbrigðismála.

[10:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Helsti vandi Landspítalans sem og annarra heilbrigðisstofnana á Íslandi er mönnunarvandi. Það vantar fyrst og fremst hjúkrunarfræðinga sem hafa menntað sig til starfa en kosið að fara annað vegna áralangrar kjarabaráttu sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Það vantar fjármagn til að ráða til starfa fleira fólk og á því bera stjórnvöld líka ábyrgð. Heilbrigðiskerfið hefur á vakt Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn undanfarin sjö ár verið vanfjármagnað og er enn.

Inni í þeim tölum sem nú er teflt fram í fjárlagaumræðunni er einfaldlega bygging nýs Landspítala, viðbygging við Sjúkrahúsið á Akureyri og viðbygging við Grensás sem eru samtals nærri 8 milljarðar af þeim 9 sem er heildarhækkunin til málaflokksins. Raunhækkunin liggur í steinsteypu en ekki í nauðsynlegum rekstri heilbrigðiskerfisins um allt land. Það er aðhaldskrafa í boði hæstv. ríkisstjórnar. Starfsfólk heilbrigðiskerfisins bjargar mannslífum, hleypur hraðar undir ómennsku álagi en fær þau skilaboð frá ríkisstjórninni að það geri bara ekki nóg og sé einfaldlega of dýrt í rekstri.

Herra forseti. Á Íslandi stefnir í metatvinnuleysi um allt land. Hvernig væri að stjórnvöld opnuðu augun fyrir því að með því að manna þessar nauðsynlegu stöður á heilbrigðisstofnunum um allt land myndi allt samfélagið græða? Ríkissjóður myndi græða margfalt, biðlistar myndu minnka, atvinnuleysi myndi minnka og þjónustan yrði betri.