151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

sveigjanleg símenntun.

[11:07]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það var ágætissvar um ákveðnar aðgerðir hjá hæstv. ráðherra en hún nefndi eitt orð sem mér finnst mikilvægt í þessu samhengi og það er aðgangshindrun. Fátækt er aðgangshindrun. Það að geta ekki borgað leigu er aðgangshindrun. Fólk sem vill sækja í nám á þessum tíma þarf að geta átt í sig og á. Alveg sama hversu mikið er bætt í og opnað á að fleiri geti sótt sér nám; ef fólk hefur ekki tækifæri til þess út af eigin efnahag er það auðvitað aðgangshindrun. Það er mjög fínt að opna á verk- og tækninám, að þeir sem hafa sveinspróf geti farið í háskóla. Gott. En hvað um að bjóða upp á atvinnuleysisbætur fyrir námsmenn? Hvað um að styrkja kerfið þannig að fólk sem er núna í þeim hópi, 8,5% landsmanna, sem hefur ekki atvinnu og sér ekki fram á að láta enda ná saman, hafi möguleika á því að fara og sækja sér nám?