151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

tekjuskattur.

3. mál
[11:13]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt að verið sé að taka á skattundanskotum og milliverðlagningu sem hefur verið ákveðinn sjúkdómur í hagkerfinu okkar ansi lengi og ástæða til að bregðast við því. En nú höfum við brugðist við þessu nokkrum sinnum og gerðar hafa verið nokkrar tilraunir til að reyna að bæta þetta regluverk. Ég velti því fyrir mér, í ljósi þessara breytinga, hvort fram hafi farið einhvers konar mat í ráðuneytinu á því hvernig okkar löggjöf er í samanburði við löggjöf í Evrópu. Það er svo sem fjallað um skýrslu OECD í greinargerðinni og það er ekki eins og lesefni skorti um þennan málaflokk. En getum við ekki einhvern veginn tekið á þessu þannig að hægt sé að stoppa milliverðlagningu í eitt skipti fyrir öll og bara klára það mál vegna þess að þetta hefur verið vandamál mjög lengi? Þetta hefur ekki verið lagað með fullnægjandi hætti og við vitum alveg að milliverðlagning er enn í gangi.