151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

4. mál
[11:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir endurfluttu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum frá því að það var lagt fram á 150. löggjafarþingi. Hér hafa ákvæði um CFC-skattlagningu verið felld úr frumvarpinu og mun sérstakt frumvarp verða lagt fram um það á vorþingi 2021. Frumvarp þetta hefur að geyma tillögur að breytingum á ákvæði tekjuskattslaga um samsköttun félaga, í öðru lagi ákvæði um undanþágu frá reglum sömu laga um takmörkun á vaxtafrádrætti og að lokum ákvæði til breytingu laga um staðgreiðslu opinberra gjalda vegna skattlagningar útsendra starfsmanna.

Fyrst aðeins um samsköttunina. Tillaga frumvarpsins um breytingar á reglum um samsköttun félaga er lögð fram til að bregðast við athugasemdum eftirlitsstofnunar EFTA, eða ESA, um að íslenskar reglur um samsköttun og nýtingu eftirstöðva á rekstrartapi félaga kunni að brjóta í bága við 31. og 40. gr. EES-samningsins um staðfesturétt og frjálst flæði fjármagns. Í frumvarpinu felast þannig tillögur um breytingar á 55. gr. tekjuskattslaga. Annars vegar er þar lagt til að dótturfélögum félaga í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sem staðsett eru hér á landi, verði heimil samsköttun með innlendum samstæðufélögum. Hins vegar er lagt til að hérlendu móðurfélagi verði heimilt að óska eftir takmarkaðri samsköttun með dótturfélögum sínum, skráðum innan eins aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda séu öll almenn skilyrði samsköttunar uppfyllt að öðru leyti.

Varðandi takmörkun á frádrætti vaxtagjalda er hér lagt til að þær takmarkanir eigi ekki við um samstæður félaga sem njóta heimildar til samsköttunar samkvæmt 55. gr. tekjuskattslaga þegar öll félög samstæðu eru heimilisföst hér á landi.

Þá eru lagðar til breytingar á skattskyldu í tengslum við útleigu á vinnuafli eða annars konar vinnuframlagi starfsmanna erlendra aðila hér á landi í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð. Brýn þörf er talin á að útvíkka ábyrgð og skyldu innlendra aðila sem launagreiðenda starfsmanna erlendra aðila vegna vinnu hér á landi.

Mat á áhrifum tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt kemur fram í frumvarpinu. Er talið að ákvæði frumvarpsins um samsköttun muni hafa einhvern aukinn kostnað í för með sér, a.m.k. til skemmri tíma litið þar sem opnað er fyrir samsköttun með innlendum hluta samstæðna sem ná út fyrir landsteinana. Engin leið er þó til að meta þau áhrif í krónum á þessu stigi en þau munu koma fram sem lækkun á tekjuskatti lögaðila vegna samnýtingar á rekstrartapi innan samstæðunnar strax, sem ella hefði komið fram á lengri tíma.

Ákvæði frumvarpsins um undanþágur frá ákvæðum tekjuskattslaga um takmarkanir á frádrætti vaxtagjalda er ekki talið líklegt til að hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem aldrei hefur komið til þess að ákvæðið nái til innlendra samstæðna. Við mat á áhrifum ákvæða frumvarpsins um útsenda starfsmenn á tekjur hins opinbera er litið til beinna áhrifa á tekjuskatt einstaklinga, útsvar og tryggingagjald. Við áhrifamat fyrri frumvarpa sama efnis sem ekki náðu fram að ganga var stuðst við fjöldatölur frá Vinnumálastofnun yfir starfsmenn erlendra þjónustufyrirtækja sem störfuðu á Íslandi 2017 og launatölfræði sambærilegs hóps launþega á Íslandi úr álagningarskrá tekjuskatts einstaklinga til viðmiðunar. Þannig var byggð upp líkleg tekjudreifing fyrir starfsmenn erlendu þjónustufyrirtækjanna sem um ræðir. Að teknu tilliti til sóttvarnaaðgerða og stöðu á vinnumarkaði um þessar mundir en jafnframt vísbendinga um umsvif fram undan í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eru áhrif ákvæðisins á skatttekjur talsvert óviss. Ætla má að tekjuskattur einstaklinga, að teknu tilliti til persónuafsláttar til útsvars, gæti aukist um allt að 100 millj. kr. á ári að meðaltali út tímabil fimm ára fjármálaáætlunar, og tryggingagjald um allt að 200 millj. kr. á ári að meðaltali. Sömuleiðis munu sveitarfélögin njóta góðs af ákvæði þessu. Þannig eru metin heildaráhrif á tekjur hins opinbera allt að 300 millj. kr. á ári.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.