151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[11:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2021. Efnisatriði frumvarpsins eru af margvíslegum toga og hafa bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Ég mun nú fjalla nokkuð ítarlega um þau atriði sem mestu máli skipta en sú yfirferð er ekki endilega í þeirri röð sem er að finna í frumvarpinu.

Fyrst um erfðafjárskatt. Það er lagt til að skattfrelsismörk erfðafjárskatts hækki úr 1,5 millj. kr. í 5 millj. kr. en bæði hlutfall erfðafjárskatts og skattfrelsismörkin hafa staðið óbreytt frá árinu 2010. Með því að hækka skattfrelsismörkin er tekið skref í þá átt að draga úr skattbyrði einstaklinga sem fá úthlutað arfi úr dánarbúi. Hækkun skattfrelsismarka mun sérstaklega koma til með að nýtast einstaklingum sem fá úthlutað arfi úr eignaminnstu dánarbúunum en miðað við álagningu 2020 eru um 23% dánarbúa undir 5 milljónum í heildarverðmæti. Jafnframt er lagt til að skattfrelsismörkin taki árlegum breytingum miðað við þróun vísitölu neysluverðs til framtíðar.

Þá um verðlagsuppfærsla krónutöluskatta og -gjalda. Hér er gert ráð fyrir að það verði 2,5% hækkun á svokölluðum krónutölusköttum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Miðað við þær má segja að skattstofnarnir séu að rýrna en verðlagsforsendurnar eru um 3,2% hækkun vísitölu neysluverðs á árinu. Hins vegar er gert ráð fyrir því að 2,5% hækkunin fylgi í raun og veru verðbólgumarkmiðinu. Við höfum í gegnum tíðina iðulega uppfært krónutölugjöldin og -skattana með verðlagi þannig að skattstofnarnir séu yfir tíma ekki að rýrna. Við getum horft til þess hér að tekjuáhrifin af þessari breytingu eru u.þ.b. 1,8 milljarðar.

Gefum okkur nú að við myndum láta undir höfuð leggjast eða kannski frekar láta hjá líða að hreyfa við þessum krónutölugjöldum og -sköttum í áratug. Þá myndum við fá u.þ.b. 20 milljarða áhrif, ekki satt, ef áhrifin á ári eru u.þ.b. 1,8 milljarðar. Þetta er svona mjög grófur reikningur, að gefnum ákveðnum verðlagsforsendum. En hérna höldum við okkur við verðbólgumarkmið Seðlabankans og það má segja að sú hugsun eigi rætur sínar í samtali við aðila vinnumarkaðarins allt aftur til ársins 2014. Þá var á það lögð áhersla að allir legðust á eitt við að halda aftur af hækkun verðbólgunnar og við gáfum út yfirlýsingu á þeim tíma um að út það kjörtímabil yrðu engar breytingar á þessum krónutölusköttum og -gjöldum umfram verðbólgumarkmiðið.

Það sem er undir hér er sem sagt kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt bensíngjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald og gjald af áfengi og tóbaki. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði tæplega 1,8 milljörðum að meðtöldum áhrifum á virðisaukaskatt. Áhrifin á vísitölu neysluverðs eru í lágmarki eða 0,08% og er þá hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra ekki innifalin en þau gjöld hafa ekki áhrif á vísitöluna.

Næst um gjaldskrár vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Lagðar eru til breytingar á gjaldhlutföllum eftirlitsgjalds og ýmsum lágmarks- og fastagjöldum samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Heildarbreytingar á hlutfallstölum endurspegla álagt eftirlitsgjald til að standa undir rekstri Fjármálaeftirlitsins og skilavaldsins. Eftirlitsgjaldið er samtals að fjárhæð 2.180 millj. kr. og er áætlað að aðrar tekjur fjármálaeftirlitsins nemi 41,6 millj. kr. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður verði 2.626,5 millj. kr., þar af 80 milljónir vegna skilavaldsins. Þannig er gert ráð fyrir að heildarútgjöld nemi um 405 milljónum umfram samtölu tekna og verði mætt með lækkun á eigin fé Fjármálaeftirlitsins. Þá er lagt til að tveimur nýjum ákvæðum verði bætt við lögin með nýjum gjaldaliðum sem ætlað er að standa undir kostnaði við rekstur skilavalds og jafnframt að Seðlabankanum beri að halda þeim tekjum aðskildum frá öðrum.

Það er mikilvægt að átta sig á því að með skilavaldinu erum við að ræða um nýja einingu sem sett hefur verið upp innan Seðlabanka Íslands til að framkvæma aðgerðir og sinna undirbúningi og framkvæmd skilameðferðar lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Um framkvæmdina fer eftir lögum um sama efni sem tóku gildi 1. september sl.

Loks er lagt til að fjárhæðir fastagjalda fyrir afgreiðslu umsókna um starfsleyfi eftirlitsskyldra aðila verði hækkaðar. Gert er ráð fyrir að breytingarnar, sem taka mið af rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins, hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Næst að greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Í frumvarpinu er lögð til hækkun á gjaldhlutfalli af álagningarstofni samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur stofnunarinnar og er lagt á gjaldskylda aðila. Í lögunum er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns skuldara við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Útlán gjaldskyldra aðila 31. desember 2019 voru um 3.756 milljarðar kr. og áætlaður kostnaður vegna reksturs umboðsmanns skuldara er um 321 millj. kr. Álagningarprósentan verður því 0,008536% á árinu 2021. Álagningarstofn gjaldsins eru öll útlán gjaldskyldra aðila.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er lögð til 2,5% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2021. Þetta er reyndar ekki í samræmi við verðlagsforsendurnar heldur er undir verðlagsforsendum. Samkvæmt því verður gjaldið 12.034 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2021 vegna tekna ársins 2020. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði um 65 millj. kr. í viðbótartekjur á ári.

Jafnframt er gert ráð fyrir því að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 17.900 kr. í 18.300 kr. og er það í takt við almennar verðlagsbreytingar. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni nema um 116 millj. kr. árlega.

Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna er einn liður þessa frumvarps. Það er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða og er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Jafnframt er lagt til að gildandi ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði framlengt. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2021.

Í frumvarpinu er enn fremur lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða til að sporna gegn því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju á árinu 2021. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2021 og á yfirstandandi ári. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr nefndri tölu, 1.315.200 kr. í 300.000 kr. og leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Að óbreyttu hefðu útgjöldin lækkað um 1 milljarð á árinu 2021.

Hér er lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lögum um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2021. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin frá 2013. Eftir sem áður er gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum eða 0,10%. Þá er gert ráð fyrir því að samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og barnamálaráðherra annars vegar og VIRK starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar verði breytt til samræmis og að á árinu 2021 leggi ríkissjóður starfsendurhæfingarsjóði til framlag á fjárlögum um sóknargjöldin.

Þá er í þessu frumvarpi gert ráð fyrir að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 975 kr. í 980 kr. fyrir árið 2021. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga, en nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2020, með breytingu á lögum um sóknargjöld, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 2.737,5 millj. kr. framlagi til þeirra liða sem sóknargjald reiknast á að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins. Nemur heildarhækkun sóknargjaldsins frá gildandi fjárlögum því 20,9 millj. kr.

Næst ætla ég að fjalla hér um gjaldskylda losun gróðurhúsalofttegunda og úrvinnslugjald. Það er gert ráð fyrir að fjárhæð losunargjalds vegna hvers tonns gjaldskyldrar losunar verði hækkað úr 3.025 kr. í 3.430 kr. Þetta er til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Jafnframt eru lagðar til breytingar á úrvinnslugjaldi vegna pappaumbúða olíuvara, vara í ljósmyndaiðnaði, framköllunarefna og varnarefna. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Eins og sjá má af frumvarpinu eru örfáir aðilar sem falla undir gjaldskylduna, jafnvel einn ef að líkum lætur.

Þá um vaxtabætur. Lagt til að bráðabirgðaákvæði sem kveður á um útreikningsreglur vaxtabóta verði framlengt eitt ár í viðbót sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir kerfisins verði þær sömu á næsta ári og voru á þessu ári. Á grundvelli þeirra forsendna er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 2,6 milljörðum á árinu 2021.

Um mat á áhrifum tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga og sama má segja um áhrif þeirra á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Eftirlitsgjald til að standa straum af kostnaði við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi tekur nokkrum breytingum, ýmist til lækkunar eða hækkunar á einstaka liðum en í heildina lækkar gjaldið. Lækkunin hefur ekki áhrif á starfsemi FME því að gengið er á eigið fé til að standa undir heildargjöldum. Nýir gjaldaliðir til að standa undir kostnaði við rekstur skilavalds leggjast á viðskiptabanka, lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki sem falla undir gildissvið laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals 180 millj. kr. en þau gjöld hafa ekki áhrif á vísitölu neysluverðs. Þá mun verðlagsuppfærsla krónutölugjalda auka tekjur ríkissjóðs um 1,8 milljarða kr. Áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs eru, eins og áður segir, 0,08%.

Tillaga í frumvarpinu um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 2,6 milljörðum eins og áður segir.

Þær breytingar sem lagðar eru til á erfðafjárskatti munu lækka skatttekjur ríkissjóðs frá því sem annars hefði orðið. Búast má við því að áhrifin af því að hækka skattleysismörkin lækki tekjur ríkissjóðs um hálfan milljarð á árinu 2021. Í fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár eru tekjur af erfðafjárskatti áætlaðar 3,7 milljarðar. Samþykkt frumvarpsins hefur aftur á móti jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra einstaklinga sem fá úthlutað arfi úr dánarbúi. Gert er ráð fyrir tekjuáhrifum frumvarpsins í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2021 og í fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025.

Aðrar breytingar hafa ýmist áhrif á tekju- eða gjaldahlið en samanlögð áhrif af þeim eru óveruleg.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.