151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

hækkun atvinnuleysisbóta.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mun spritta mig og taka svo þennan bækling frá hv. þingmanni. Nú er ég ekki búin að lúslesa bæklinginn sem hv. þingmaður skildi hér eftir en ég hef hins vegar hlustað eftir því hvað hann og flokkur hans hafa sagt. Ég les það og skil það þannig að þær áherslur séu ekki fjarri áherslum ríkisstjórnarinnar, þ.e. stóra verkefnið snýst um það hvernig við getum unnið bug á atvinnuleysi, hvernig við getum tryggt að atvinnuleysi verði hér ekki viðvarandi samfélagsmein, hvernig við getum tryggt að fólk festist ekki í atvinnuleysi til langs tíma. Það kann vel að vera að Samfylkingin segi: Við viljum setja enn meira í opinbera fjárfestingu en ríkisstjórnin. En ég verð ekki vör við neinn grundvallarágreining. Það er það sem er skylda stjórnvalda að gera núna, að efla opinbera fjárfestingu, að nýta leiðir til að efla fjárfestingu annars staðar í kerfinu, líka hjá einkaaðilum, eins og ríkisstjórnin hefur boðað að hún muni gera í þágu grænna markmiða. Og auðvitað að verja opinbera kerfið þannig að við séum líka að verja störf, en ekki síður þá mikilvægu þjónustu sem þar er veitt fyrir allan almenning.