Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

hækkun almannatrygginga.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég vil bara benda henni á að þetta er einfalt mál. 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrislaun er búið að vera óbreytt í þrjú, fjögur ár. 109.000 kr. frítekjumark á laun er búið að vera óbreytt, í hvað langan tíma? Það ætti að vera tvöfalt, 200.000 kr. í dag, ef það hefði fylgt einhverju, þó ekki væri nema neysluverðsvísitölu. Styrkir fyrir lyfjum, bensíni, bílastyrkir til öryrkja hafa ekki hækkað. Allt hefur þetta þau áhrif að öryrkjar þurfa að leggja meiri pening í sameiginlegan sjóð til að geta framfleytt sér.

Síðan er önnur spurning: Hvernig stendur á því að listamannalaun eru 408.000 kr.? Það er flott. Lágmarkslaun eru um 350.000 kr. Atvinnulausir fá 300.000 kr. Öryrkjar fá 260.000 kr. eða um 86.000 kr. minna en lágmarkslaun. Hver reiknaði þetta út?