151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

barnalög.

11. mál
[16:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þolinmæðina, það er um langan veg að fara í ræðustól þessa dagana. Ég ætla ekki að halda langa ræðu í 1. umr. um þetta þarfa mál sem hefur auðvitað margsinnis verið lagt fram á Alþingi en þetta er í annað sinn sem hæstv. dómsmálaráðherra flytur þetta brýna og mikla réttlætismál. Það er margt gott í þessu og ég fagna því að málið komi fram þetta snemma á þinginu og við skulum vona að hv. allsherjar- og menntamálanefnd takist að ljúka því, enda er það svo að meginþorri foreldra nær að semja bróðurlega á milli sín og systurlega um það hvernig þau haga uppeldi barna sinna og búsetu þeirra ef til skilnaðar eða samvistarslita kemur. Þess vegna er það afskaplega óheppilegt þegar kerfið er þannig útbúið að ekki sé hægt að vera í fullri samvinnu með algjört jafnrétti þarna á milli.

Því miður er það í rauninni hérna enn þá að lögheimilið tilheyrir öðru foreldrinu, en skráð búseta verður á báðum stöðum. Þetta er væntanlega gert til þess að annað foreldrið geti leyst um hnútinn ef ósætti verður. Það er áframhaldandi ákveðið valdaójafnvægi á milli sem er alltaf af hinu vonda. En mögulega er það algerlega óhjákvæmilegt, því miður. Sem betur fer er meginþorri foreldra í góðri samvinnu. Þegar ekki er um góða samvinnu að ræða, þegar átök eru, þegar vilji til ágreinings er mikill, að við tölum nú ekki um þegar um er að ræða hættu fyrir barn eða fyrir foreldri á einhvers konar ofbeldi eða vanvirðandi meðferð, þá gildir að sjálfsögðu ekki skipt búseta, hún mun ekki ganga upp, af því að það verður að vera þessi góða samvinna sem betur fer er í langflestum tilvikum.

Ég vil ítreka í þessari ræðu minni til að því sé haldið til haga að að mínu áliti er það algjört grundvallaratriði að með þessu frumvarpi verði tryggt — og ég skora á þá sem eru fulltrúar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að tryggja það í frumvarpinu með einhvers konar bráðabirgðaákvæði sem verði bætt við frumvarpið — að hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra gangi frá því fyrir gildistöku laganna að stuðningur við börn með fötlun sem þurfa á honum að halda, einhvers konar stuðningstækjum eða slíkri aðstoð á sínu heimili, verði veittur af hálfu ríkisvaldsins á bæði heimilin.

Þetta verður að vera klárt þegar málið er afgreitt út úr hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta er algjört lykilatriði. Það verður að vera tryggt að börn sem þurfa á stuðningi að halda, börn sem búa við fötlun og þurfa á hjálpartækjum að halda á heimilum sínum, þess háttar hjálpartækjum að það er ekki hægt að færa þau á milli með barninu heldur eru þau á einhvern hátt bundin við heimilið, fái þann stuðning og slík hjálpartæki séu styrkt á bæði heimili. Ég legg til að það verði sett einhvers konar bráðabirgðaákvæði í frumvarpið með breytingartillögu frá nefndinni til að þetta verði tryggt. Þetta er algjört lykilatriði.

Varðandi meðlög og varðandi þá sem eru tekjulægri þá gerir maður ráð fyrir að þegar um er að ræða þetta mikla sátt milli foreldra sé mögulega hægt að tryggja að svo verði einnig þegar kemur að þeim hlutum. En þetta er líka eitthvað sem væri hægt að leggja fyrir hæstv. barnamálaráðherra að ganga frá áður en lögin taka gildi. Gildistökuákvæðið er 1. janúar 2022 þannig að það er nægur tími til að tryggja að svo verði.

Ég fagna þessu frumvarpi og mun gera allt sem í mínu valdi stendur, verandi ekki í þessari nefnd, til að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi.