151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

16. mál
[17:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hægagangurinn sem fjallað er um hér er sá að ef einstaklingur, gerðarþoli, mótmælir lögbannskröfu hjá sýslumanni þá hefur átt sér stað eitthvert ferli áður en það gerist. Sett er á lögbann og því næst þarf gerðarþoli að fara með mál í héraðsdóm og bíða þar einhverja daga. Vissulega fagna ég þeirri viðleitni sem er í þessu frumvarpi, að ekki þurfi að lúta vilja dómstjóra hverju sinni um hvort flýtimeðferð verði samþykkt, heldur virðist hún vera komin sjálfkrafa inn. En engu að síður væri hægt að stytta leiðirnar það mikið að þetta færi beinustu leið inn, bæði krafan um lögbann og svarið við því að þetta væri tekið fyrir í þinghaldi fyrir héraðsdómi en ekki með milligöngu sýslumanna, af því að ég tel að slíkt tefji málið.

Þá vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra út í gjafsókn fyrir þá sem þurfa að þola lögbann. Hvort komið hafi til álita að sá sem þola þarf lögbann, sem iðulega er lögaðili, af því að oft er um að ræða einhvers konar birtingu á efni, að lögaðilinn, fjölmiðlar, sem eiga nú frekar í erfiðleikum en hitt, geti sótt um gjafsókn í svona málum.