151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

almenn hegningarlög.

132. mál
[18:04]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, með það að markmiði að treysta réttarvernd þeirra sem verða fyrir því sem á íslensku hefur verið nefnt umsáturseinelti. Það hugtak hefur fest sig í sessi sem íslensk þýðing enska orðsins, með leyfi forseta, „stalking“, og þykir nokkuð lýsandi fyrir þá háttsemi að sitja um aðra manneskju og valda þannig hræðslu eða kvíða. Umsátrið getur jafnvel gengið svo langt að manneskja sem fyrir því verður, upplifi beinlínis ógn og skelfingu sem skerða lífsgæði hennar til muna.

Í tengslum við fullgildingu Íslands á Istanbúl-samningum svonefnda, þ.e. samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, voru árið 2016 gerðar breytingar á íslenskum hegningarlögum til að tryggja að íslensk refsilöggjöf uppfyllti ákvæði samningsins. Kom þá sérstaklega til athugunar hvort 34. gr. Istanbúl-samningsins, sem fjallar um umsáturseinelti, kallaði á breytingar á íslenskri löggjöf. Niðurstaða þeirrar athugunar var að svo væri ekki. Var litið svo á að ákvæði íslenskra laga tækju þegar til háttseminnar sem lýst er í greininni og var þar fyrst fremst höfð í huga löggjöf um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Hvað sem líður skuldbindingum Íslands samkvæmt Istanbúl-samningnum þykir nú orðið ljóst að ákvæði um nálgunarbann veiti þolendum ofbeldis ekki nægilega vernd fyrir síendurteknum friðhelgisbrotum eða ofsóknum. Er rétt að árétta í því sambandi að nálgunarbann er ekki refsing heldur ráðstöfun sem takmarkar athafnafrelsi þess sem það er lagt á. Því legg ég til með frumvarpi þessu að lögfest verði sérstakt refsiákvæði um umsáturseinelti, líkt og gert hefur verið á öllum hinum Norðurlöndunum að Danmörku einni undanskilinni. Lögfesting slíks ákvæðis er í góðu samræmi við markmið Istanbúl-samningsins og kæmi til viðbótar ákvæðum um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Virðulegi forseti. Nánar tiltekið er lagt til að við almenn hegningarlög verði bætt nýrri lagagrein, er verði 232. gr. a laganna, sem geri það refsivert að hóta, fylgjast með, setja sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti sitja um annan mann ef háttsemin er endurtekin og til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða.

Í ákvæðinu eru algengustu aðferðir sem beitt er við umsáturseinelti taldar upp en það liggur í hlutarins eðli að slík upptalning getur aldrei orðið tæmandi. Eiga orðin „með sambærilegum hætti“ að tryggja að aðrar aðferðir en þær sem sérstaklega eru nefndar og eru til þess fallnar að valda öðrum hræðslu eða kvíða falli einnig undir ákvæðið. Þá þarf sú háttsemi eða aðferð sem beitt er við umsáturseinelti ekki að fela í sér sjálfstæðan verknað. Verði frumvarpið að lögum gæti hegðunin aftur á móti orðið refsiverð sé hún endurtekin og skilyrði hins nýja ákvæðis að öðru leyti uppfyllt. Þá er með ákvæðinu horft til þess hvort hegðunin sé til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða. Með öðrum orðum: Áhersla er lögð á háttsemina sjálfa en ekki á hvaða afleiðingar hún hefur eða upplifun þess sem umsáturseineltið beinist að.

Þá gerir ákvæðið engar kröfur til tengsla geranda og þolenda, svo sem um að þeir hafi áður verið í nánu sambandi. Umsáturseinelti getur þannig hvort heldur beinst að einhverjum sem gerandi þekkir vel eða bláókunnugum. Þá hefur reynslan sýnt að þeir sem hafa í frammi umsáturseinelti beina því ekki endilega eingöngu að tiltekinni manneskju heldur til viðbótar að öðrum einstaklingum sem tengjast henni, svo sem fjölskyldu, vinum eða samstarfsmönnum.

Að lokum er lagt til með frumvarpinu að umsáturseinelti varði sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.

Virðulegi forseti. Ég tel að með þessu nýja ákvæði stígum við mikilvægt skref til að auka réttarvernd þeirra sem verða fyrir ofbeldi. Við tökum á þeirri háttsemi sem hér getur átt undir alvarlegri tökum sem hafi skýrari afleiðingar. Það verða að teljast sjálfsögð mannréttindi að einstaklingum sé tryggður sá réttur í lögum að ganga um í samfélaginu óáreittir. Með ákvæðinu erum við að hnykkja á þeim rétti brotaþola að eiga rétt á friðhelgi einkalífs, eins og markmið laga um nálgunarbann er nú þegar en dómaframkvæmd hefur sýnt okkur að mikilvægt sé að skýra frekar.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.