151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

almenn hegningarlög.

132. mál
[18:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Mér finnst enn þá ekki alveg skýrt ef kæra er lögð fram vegna umsáturseineltis hvort viðkomandi verði ráðlagt að fara fram á nálgunarbann eða að það fari af stað einhvers konar eftirgrennslan um hvort slíkt sé nauðsynlegt. Við vitum að málsmeðferð í sakamálum getur tekið vissan tíma. Það er kannski það sem ég er að grennslast fyrir um. Mun eitthvað „átómatískt“ taka við sér hjá kerfinu þegar kemur að nálgunarbanninu sjálfu sem gæti verið nauðsynlegt til viðbótar við þessa kæru?

Það er tvennt annað sem mér finnst áhugavert við framsögu hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi talar hún um að þeir sem stundi umsáturseinelti geri það jafnframt gagnvart aðilum sem eru nátengdir þeim sem verða fyrir umsáturseineltinu. Mig langar að spyrja: Ef viðkomandi nálgast einu sinni t.d. móður brotaþola hefur hún einhvern sjálfstæðan rétt þar sem þetta er ekki endurtekið, þetta er hluti af umsáturseinelti? Eða fellur það bara undir þennan fyrsta hluta?

Sömuleiðis vildi ég spyrja um nethliðina á þessu, virðulegi forseti. Þarna er talað um að eltast við fólk á netinu. Ég velti fyrir mér: Hvernig er það afmarkað? Er einhvers konar þröskuldur? Ég velti fyrir mér dómaframkvæmdinni í kringum það. Hvað telst að vera eltihrellir á netinu eða að verða fyrir umsáturseinelti á netinu? Mér finnst það mjög jákvætt að þetta sé þarna inni en mér finnst það svolítið óskýrt utan um hvað það nær nákvæmlega. Það er kannski bara eitthvað sem verður að ráðast af dómaframkvæmd. Ég spyr af því að mér finnst mikilvægt að löggjafinn ræði það líka. Hvað er yfir strikið, hversu lengi, hversu oft, hversu umfangsmikið má það vera á netinu til að það fari yfir strikið og verði hluti af refsiákvæðinu og falli undir þennan verknað?