151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það er táknrænt að þegar stjórnvöld komast ekki lengur upp með það að sópa nýju stjórnarskránni undir teppið þá beinlínis háþrýstiþvo þau burt sannleikann um vanvirðingu þeirra við þjóðarviljann. Veggur sem staðið hefur óáreittur árum saman, þakinn veggjakroti, er skyndilega orðinn forgangsverkefni í Stjórnarráðinu. Það hefur ekki hvarflað að stjórnvöldum eina einustu sekúndu að hreinsa vegginn. Það þurfti ekki nema eina saklausa spurningu: Hvar er nýja stjórnarskráin? Hvar er hún?

Feneyjanefnd Evrópuráðsins skilað um daginn áliti á þeim slitróttu breytingum á stjórnarskránni sem hæstv. forsætisráðherra ætlar að leggja til. Þar er lýðræðislegu ferli við gerð tillagna stjórnlagaráðs sérstaklega fagnað og sagt berum orðum að ríkisstjórnin verði að útskýra mál sitt ítarlega ef bregða á út frá þeirri leið. Ekki með því að segja bara að þeim finnist eitthvað annað heppilegra heldur þarf að útskýra efnislega af hverju tillögur stjórnlagaráðs eru þeim óþægilegar, hvað það er við lýðræðislegustu stjórnarskrárritun mannkynssögunnar frá þjóðfundinum 2010 til þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 sem er þeim á móti skapi.

Hæstv. forsætisráðherra skuldar þjóðinni augljósar skýrar og sannfærandi útskýringar á leið sinni og ástæðu þess að vikið er í veigamiklum atriðum frá tillögum stjórnlagaráðs sem samþykktar voru í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Annars getið þið, kjósendur, tekið upp kjörseðilinn eftir ár og spúlað út af Alþingi í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá sem virða ekki ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu ykkar.

Að lokum vil ég hvetja öll til að fara inn á vefinn nystjornarskra.is (Forseti hringir.) og skrifa undir áskorun til okkar þingmanna um að lögfesta nýju stjórnarskrána.