151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Í upphafi vil ég vera örlítið jákvæður, aldrei þessu vant, og taka undir með ákveðnu atriði í ræðu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar sem hér talaði áðan. Ég get verið sammála honum um að á tímum eins og þessum er það forgangsverkefni stjórnvalda, Alþingis, að fjalla um þau mál sem snúast um viðbrögð við kórónuveirunni, hvort sem um er að ræða sóttvarnaráðstafanir, aðrar slíkar opinberar ráðstafanir eða efnahagsaðgerðir til að draga úr áhrifum veirunnar, og stuðla að því að við náum okkur sem fyrst af stað aftur. Því atriði í ræðu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar er ég sammála.

Ég tek það hins vegar fram að frá því að veiran gerði vart við sig hér á vordögum hefur þetta einmitt verið forgangsverkefni, bæði ríkisstjórnar og Alþingis. Þegar hingað hafa komið mál sem varða viðbrögð við þessum aðstæðum hafa þau vissulega fengið forgang og oft og tíðum hefur það verið í góðu samstarfi við stjórnarandstöðuna. Ég vona að það verði með þeim hætti áfram að þegar við fáum inn mál sem eru brýn vegna aðstæðnanna getum við sameinast um að veita þeim forgang og leggja alla okkar krafta í að gera eins vel og við getum til þess að bregðast við aðstæðum.

Ég er hins vegar ósammála hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni um að það þýði að önnur mál komist ekki á dagskrá þingsins og alveg ástæðulaust að tala með þeim hætti að tíma þingsins sé ekki vel varið við að ræða stjórnarfrumvörp af öðru tagi. Það hljótum við að gera jafnt og þétt eftir því sem þau koma fram og eftir því sem þau kalla á umræður og afgreiðslu. En forgangurinn á þessum hættutímum hlýtur að snúast um viðbrögð við aðstæðunum.