151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[14:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Þetta er góð spurning. Í raun og veru gæti ég svarað henni þannig að þetta þurfi ekki að hafa nein áhrif. Það er ekki víst að þetta hafi nein áhrif. Staðan er sú, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er með tvær konur sem hægt er að skipa í nefndir í þinginu, en hefur á móti níu karla sem hægt er skipa til sætis. Og það raðast með einhverjum hætti. Það raðast, eins og hv. þingmenn hljóta að gera sér grein fyrir, eftir fullt af öðrum sjónarmiðum en bara kynferði. Það raðast m.a. eftir því hvar þingflokkurinn metur að styrkleikar viðkomandi liggi, hvaða áhugasvið viðkomandi þingmaður hefur o.s.frv. Þannig að vísiregla af þessu tagi mun aldrei binda hendur þingflokka, hvorki smárra né stórra að þessu leyti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að gera það. Það kann að vera einhverjir aðrir séu þeirrar skoðunar að binda eigi hendur flokka að þessu leyti. En ég er ekki þeirrar skoðunar.