151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[16:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í hópi þeirra sem eru mjög hugsi yfir þessum málum öllum, bæði núverandi kerfi og eins því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég á afskaplega bágt með margt í núgildandi löggjöf. Ég er ekki alveg viss um að frumvarpið sem hér liggur fyrir færi okkur öll svörin en er tilbúinn að skoða það með jákvæðu hugarfari. En vegna ræðu nafna míns, hv. þm. Birgis Þórarinssonar, velti ég fyrir mér af hverju hann heldur að sú breyting sem felst í frumvarpinu leiði til þess að íslensk mannanafnahefð bíði skaða af. Hefðin er miklu eldri en löggjöf sem um þetta gildir. Mannanafnanefnd er tiltölulega nýtt fyrirbæri. Ég verð að játa að ég held að mannanafnahefðin lifi vegna þess að hún á hljómgrunn með þjóðinni en ekki vegna þess að einhver lagabókstafur segi eitthvað um það efni.