151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[17:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Eins og forseti las svo ljúflega upp þá heiti ég Kolbeinn Óttarsson Proppé. Glöggir hlustendur átta sig kannski á því að ég ber tvö kenninöfn, er bæði kenndur við föður minn heitinn, Óttar, og eins ber ég ættarnafnið Proppé. Proppé er merkilegt ættarnafn, að mér þykir, enda er það um mína fjölskyldu. Við heitum hér Proppé, þau sem komin eru af eða tengd eru þeim sem komin eru af Claus Eggert Dietrich Proppé, sem kom til Íslands árið 1868. Hann var innflytjandi. Það væri því býsna mikill tvískinnungur ef ég stæði hér í dag gegn því að aðrir tækju sér upp ættarnafn eins og ég ber, jafnvel innflytjendur sem koma til landsins sem vilja halda því, nú eða þá fólk sem heitir einhverjum öðrum nöfnum í dag en vill kjósa sér ættarnafn. Það mun ég ekki gera, heldur mun ég styðja val fólks í þessum málum.

Eins og ég kom hér að, forseti, hef ég sjálfur þessi tvö kenninöfn þannig að ég held á þann hátt einnig við hinni gömlu íslensku nafnahefð að vera kenndur við föður. Svo eru ýmsir í kringum mig sem eru kenndir við eitthvað annað, við móður, og sumir sem eru í tengslum við mig hafa tekið upp þá skemmtilegu nýjung sem kom fyrir örfáum árum, að kenna sig bæði við föður og móður. Svona höfum við nú þróað og þroskast og tekið upp ýmsar nýjungar, sem er gott. Í grunninn höfum við haldið gamla kerfinu, sem er líka gott fyrir sagnfræðing eins og mig. Ég hef trú á því að það muni haldast þrátt fyrir að einhver muni nýta sér þau ákvæði þessara laga sem gefa þeim val. Ég mun því styðja þetta mál, með öllum þeim fyrirvörum að mögulega þurfi að laga eitthvað til, eins og gengur í þinglegri meðferð, það er oft sem eitthvað þarf að laga.