151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[17:38]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með síðari breytingum. Frá því að ég tók við embætti utanríkisráðherra hef ég lagt áherslu á umbætur, stefnumörkun og hagkvæmni til framtíðar. Meðal fyrstu verka var skipun stýrihóps sem lagði til árið 2017 samtals 151 tillögu um breytingar á starfsumhverfi, stefnumörkun og styrkingu þess mikilvæga starfs sem utanríkisþjónustan vinnur að. Ein tillaga þeirrar skýrslu var endurskoðun laga um utanríkisþjónustuna en í stað heildarendurskoðunar eru lagðar til breytingar á ákveðnum þáttum löggjafar utanríkisþjónustunnar. Frumvarpið var lagt fyrir 150. löggjafarþing en ekki náðist að ljúka meðferð þess. Tekið hefur verið tillit til breytinga sem þá voru lagðar til af meiri hluta utanríkismálanefndar.

Innan utanríkisþjónustunnar starfar öflugur hópur fólks og stjórnendur í utanríkisþjónustunni eru að stórum hluta úr hópi sendiherra sem flytjast til starfa, ýmist á sendiskrifstofur eða aðalskrifstofu ráðuneytisins. Algengast er að þeir sem gegna sendiherraembættum hafi helgað feril sinn utanríkisþjónustunni og öðlast framgang í starfi til að gegna sendiherraembætti. Allnokkur dæmi eru þó í gegnum árin um að skipaðir hafi verið sem sendiherrar, reynslumiklir aðilar úr stjórnmálum eða viðskiptalífi, sem byggt hafa upp tengsl, þekkingu og orðspor á vettvangi alþjóðamála og geta reynst verðmætur liðsauki við hagsmunagæslu fyrir Ísland.

Núgildandi lög um utanríkisþjónustuna veita ráðherra málaflokksins í raun algerlega frjálsar hendur við skipun sendiherra svo framarlega sem viðkomandi uppfylli lágmarkskröfur sem gerðar eru til ríkisstarfsmanna. Embættin eru undanþegin auglýsingaskyldu. Ekki eru tilgreindar sérstakar hæfniskröfur. Raunin er sú að sendiherrum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár þannig að þegar ég tók við sem utanríkisráðherra voru þeir 40 talsins og nær því fjórðungur diplómatar. Nokkrir hafa síðan látið af störfum en ég hef á þeim árum sem ég hef verið í ráðuneytinu ekki skipað nýja sendiherra í embætti.

Þegar leitast er við að meta hver reynslan er af núgildandi ákvæðum um stöðu starfsmanna utanríkisþjónustunnar og draga af henni ályktanir virðist sem ástæða gæti verið til að ganga að sumu leyti skrefinu lengra en nú er gert í þá átt að samræma reglur um starfsmenn utanríkisþjónustunnar þeim reglum sem almennt gilda um opinbera starfsmenn, en að öðru leyti hlýtur sérstaða utanríkisþjónustunnar að kalla á að lagareglum um hana sé hagað á annan veg en almennar reglur kveða á um. Breytingarnar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu miða að því að finna ákjósanlegt jafnvægi í þessu efni þannig að skapa megi farsæla umgjörð utan um mannauð utanríkisþjónustunnar, þ.e. umgjörð sem ætlað er að laða hæft starfsfólk til utanríkisþjónustunnar sem fái þar eðlilegan framgang og búi við sæmilegan fyrirsjáanleika þannig að sérþekking og kunnátta þeirra nýtist sem best.

Helstu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru fjórþættar. Í fyrsta lagi er þak sett á fjölda sendiherra á hverjum tíma. Þannig verður miðað við að fjöldi sendiherra sé ákveðið margfeldi af fjölda sendiskrifstofa. Miðað verði við að þeir verði ekki fleiri en fjöldi sendiskrifstofa. Í frumvarpinu sem lá fyrir á síðasta þingi var miðað við 1,2 stöðugildi sendiherra miðað við fjölda sendiskrifstofa. Í ábendingum í umsögnum var bent á að sá fjöldi og heimildir til að setja eða skipa tímabundið sendiherra væru vel rúmar. Ég hef tekið tillit til þeirra ábendinga og legg til enn meiri fækkun í þessum hópi. Fjölgun eða fækkun sendiskrifstofa fer ávallt fram með samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og sendiskrifstofur eru í dag 26.

Í öðru lagi myndi um þessar stöður framvegis gilda auglýsingaskylda og tilgreindar hæfniskröfur eins og um aðrar stöður embættismanna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að enginn taki við almennu embætti sendiherra nema að undangenginni auglýsingu og hæfnismati eins og með önnur embætti sem skipað er í á vegum ríkisins. Grundvallarkröfur eru háskólapróf og reynsla af alþjóða- og utanríkismálum eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu. Er í þessu efni mikilvægt að taka mið af framgangskröfum sem gerðar eru nú þegar í utanríkisþjónustunni. Með þessu verður fest í sessi umgjörð sem ætlað er að tryggja að í embættin veljist öflugir einstaklingar sem almennt kæmu úr röðum hæfustu starfsmanna utanríkisþjónustunnar og tryggt að sú reynsla, þekking og færni sem þeir hafa tileinkað sér á ferlinum verði kjarninn í þessum hópi stjórnenda.

Í þriðja lagi verður heimilað að skipa tímabundið í embætti sendiherra eða sérstaks erindreka til að hámarki fimm ára. Meginmarkmið slíkra skipana er að virkja þau verðmæti sem falist geta í sérþekkingu, reynslu og tengslaneti sem viðkomandi einstaklingar hafa skapað sér á öðrum vettvangi, hvort sem er í stjórnmálum, menningarlífi eða atvinnulífi, til að annast afmörkuð verkefni í þágu hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi. Í tillögum utanríkismálanefndar kom fram við meðferð málsins krafa um háskólamenntun og tiltekna reynslu og hæfni. Hefur ákvæðið verið aðlagað með tilliti til þess. Að þessu marki yrði ráðherra áfram heimilt að leita út fyrir raðir fastra starfsmanna utanríkisþjónustunnar eftir einstaklingum til sérstakra starfa og fyrirsvars til afmarkaðs tíma. Skipanir af þessu tagi væru ekki framlengjanlegar og viðkomandi myndi ekki flytjast til annarra starfa eða verkefna en til er stofnað. Fjöldi þeirra sem gegnt geta embætti tímabundið er takmarkaður og tekur mið af fjölda sendiskrifstofa og þess fjölda almennra sendiherra sem hverju sinni eru í embætti. Með því yrði tryggt að þorri sendiherra sé ávallt skipaður í samræmi við almennar reglur að undangenginni auglýsingu og umsóknarferli.

Varðandi skipan bæði tímabundinna sendiherra samkvæmt þessu ákvæði og við auglýstar hefðbundnar stöður sendiherra er síðan gert ráð fyrir ráðgefandi valnefnd með hliðsjón af sambærilegum ákvæðum um stöður embættismanna og forstöðumanna í stjórnkerfinu. Þessi ákvæði eru einnig að tillögu utanríkismálanefndar eftir umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið á fyrra þingi.

Fjórða meginbreytingin er að samkvæmt frumvarpinu getur ráðherra sett tímabundið sem sendiherra þá sem nú gegna stöðu sendifulltrúa í ráðuneytinu. Í þessum hópi er fjöldi reynslumikilla og öflugra starfsmanna sem gegna millistjórnarhlutverkum innan utanríkisþjónustunnar og hafa reynslu og þekkingu sem nýtist við forstöðu- og stjórnarstörf í ráðuneytinu. Með sama hætti verður ráðherra heimilt að flytja ráðna sendifulltrúa í embætti skrifstofustjóra en sú heimild var fyrir hendi á meðan sendifulltrúar höfðu stöðu embættismanna. Með þessu móti gefst tækifæri til að nýta enn betur krafta þessa hóps og veita sendifulltrúum framgang í starfi án þess að til eiginlegrar skipunar í sendiherraembætti komi. Vegna samsetningar á hópi starfsmanna sem gegna stöðu sendifulltrúa og sögulegs kynjahalla innan utanríkisþjónustunnar um áratugaskeið eykur þessi breyting verulega möguleika kvenna til að fá formlegan framgang, gegna hlutverki sendiherra og forstöðumanna sendiskrifstofa og nota þann diplómatíska titil í erlendum samskiptum þann tíma sem stöðunni er gegnt.

Aðrar breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um varða samræmingu á hugtakanotkun og stöðu þeirra sem nú þegar gegna embættum innan utanríkisþjónustunnar.

Herra forseti. Ég vil í stuttu máli nefna aðeins hvernig málum er háttað í grannríkjum okkar varðandi þessi málefni. Norrænu ríkin hafa í raun hvert sitt lag á skipulagi á sinni utanríkisþjónustu og vitaskuld er um að ræða mun fjölmennari og umfangsmeiri starfsemi en Ísland rekur. Það má segja að meginreglan alls staðar á Norðurlöndunum sé að stöður sendiherra séu auglýstar, ýmist innan utanríkisþjónustunnar eða almennt. Allar utanríkisþjónusturnar hafa ítarlegar reglur um kröfur, framgangsviðmið, skipulag og mannauðsstefnu ýmist í formi reglugerðar, reglna eða handbóka. Sama gildir fyrir stærstan hluta utanríkisþjónustunnar hér en fram að þessu hafa sendiherraembættin og skipun í þau að forminu til verið utan þess ramma. Þótt sendiherrastöður séu almennt auglýstar annars staðar á Norðurlöndunum er meginreglan sú að skipað sé í þau embætti úr hópi fastra starfsmanna sem hafa helgað sinn feril utanríkisþjónustunni. Það þýðir þó ekki að á því séu ekki undantekningar. Dæmi eru t.d. um fyrrverandi stjórnmálamenn sem hafa farið í sendiherraembætti innan sænska kerfisins. Í Noregi eru fyrrverandi stjórnmálamenn oft í hlutverki sendierindreka eða fengnir til sérstakra verkefna á sviði alþjóðamála og svo mætti áfram telja.

Það kemur kannski einhverjum spánskt fyrir sjónir að ráðherra skuli vera að leggja til að takmarka eigin heimildir og fækka í hópi sinna embættismanna þegar horft er til lengri tíma. Sú lagabreyting sem ég legg hér aftur til er hluti af stærri mynd til að efla fagmennsku, skýra kröfur, auka gagnsæi og styrkja þann ramma sem við höfum um utanríkisþjónustuna. Ef heimsfaraldurinn hefur kennt okkur eitthvað varðandi tengsl okkar við alþjóðasamfélagið þá er það að öflug utanríkisþjónusta er alger hornsteinn þegar kemur að því að finna lausnir, styðja og bjarga okkar fólki, nágrönnum og fjölskyldum þeirra þegar ógnir steðja að. Að sama skapi munu öflugir diplómatar skipta sköpum til að halda tengslum, byggja upp tengsl að nýju í viðskiptum og samstarfi á sviði mannúðar- og þróunarstuðnings þegar úr rætist.

Herra forseti. Frumvarpið sem ég mæli hér fyrir er lítið breytt frá því sem fékk umfjöllun og vandaða kynningu fyrir framlagningu og í meðferð á síðasta þingi. Aukið hefur verið við málefnalegar og faglegar kröfur auk þess sem viðmið um heildarfjölda sendiherra hefur verið lækkað. Mitt markmið með þessum breytingum er sem fyrr að skapa farsæla umgjörð um mannauð utanríkisþjónustunnar með því að færa kerfið nær því sem almennt gildir án þess að það komi niður á sérstöðu þjónustunnar eða ógni stöðugleika hennar. Skýrari rammi og sveigjanleiki samhliða fagmennsku er það sem utanríkisþjónustan þarf til framtíðar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar og 2. umr.