151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

leigubifreiðaakstur.

10. mál
[18:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hann nefnir að þetta sé eitt af því sem varðar Evrópska efnahagssvæðið. Ég held að menn verði að horfa í það að hér eru aðstæður ekki þær sömu og í erlendum stórborgum, eins og ég nefndi áðan. Ég tel að þær reglur sem hafa verið viðhafðar hér á landi við úthlutun atvinnuleyfa hafi gefið góða raun, svo það sé sagt, herra forseti. Ég tel þá aðferð sanngjarna vegna þess að þeir sem vilja virkilega stunda þessa atvinnu geta auðveldlega hafið akstur, svo sem í afleysingum, og þeir sem eru duglegastir þar fá leyfi fyrr en þeir sem vilja eingöngu stunda þetta sem hlutastarf.

Annað atriði sem nefna má varðandi það fyrirkomulag sem við höfum hér er hversu auðvelt er að sía þá út sem eiga ekkert erindi í starfsgreinina og það er líka mikilvægt. Ég óttast, herra forseti, að þetta (Forseti hringir.) verði til að kippa rekstrargrundvellinum undan þeim sem hafa þetta (Forseti hringir.) að fullri atvinnu í dag. Um 600 fjölskyldur hafa (Forseti hringir.) lifibrauð af þessari atvinnugrein. Þegar búið er að fjölga leyfunum gefur augaleið (Forseti hringir.) að það verður minna til skiptanna fyrir hina. Ég held að nefndin verði að fara mjög vandlega yfir þann þátt málsins.