151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

leigubifreiðaakstur.

10. mál
[19:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra aftur fyrir framsöguna vegna málsins áðan. Það kom mér kannski ekki á óvart að málið væri á þingmálaskrá hæstv. ráðherra fyrir veturinn en það kemur mér svolítið á óvart að það sé lagt fram alveg á fyrstu dögum þingsins. Það hlýtur að undirstrika þann mikla þunga sem settur er í að innleiða það regluverk sem ekki var innleitt í fyrra á grundvelli sambærilegs máls.

Þetta mál á auðvitað eftir að koma aftur inn í umhverfis- og samgöngunefnd og við nefndarmenn eigum eftir að ítarlega í gegnum það. En mig langaði bara við 1. umr. til að minna á þær gríðarlega sterku varúðarraddir sem komu fram um áhrif þessarar lagasetningar eins og hún hefur nú verið lögð fram. Þær heyrast ekki bara frá samtökum og félögum leigubifreiðastjóra heldur einnig frá t.d. samtökum fatlaðra, blindra, sjónskertra og fleirum sem notið hafa afburðagóðrar þjónustu leigubifreiðastjóra árum og áratugum saman, sem hafa miklar áhyggjur af því að verið sé að umbylta kerfinu, sérstaklega núna þegar stéttin er hvað veikust fyrir.

Ég veitti því athygli að hæstv. ráðherra kom inn á að hugsanlega væri hægt að eiga eitthvað við og fresta gildistökunni. En ég verð að segja að þetta er ekki tæknimál. Þetta er ekki mál sem þingið á að láta sigla í gegn á grundvelli þess að gildistöku verði frestað um einhver misseri. Ég held að það sé miklu meira prinsippmál að við leyfum okkur að verja okkar góðu og öflugu stétt leigubifreiðastjóra sem þjónustað hefur landsmenn árum og áratugum saman. Við sjáum þróunina sem varð til að mynda í Finnlandi þar sem menn eru að stíga til baka hvað þessa þróun varðar. Ég er hræddur um að við séum með þessu regluverki, eins og það liggur fyrir núna, að fórna heilli stétt öflugra manna og kvenna sem sinna sínu starfi vel, af miklum heilindum, bjóða góða þjónustu og öryggi og eru í rauninni daginn út og daginn inn að sinna miklu meiru en bara því að flytja farþega gegn gjaldi. Ég hef áhyggjur af því að rekstrargrundvelli þessarar þjónustu verði kippt undan þeim sem hana veita í dag með þessu regluverki. Og bara með það í huga ber okkur skylda til að flýta okkur hægt. Það er þannig með þetta eins og margt annað að það er æskilegt að breytingar séu til bóta og til hins betra. Við megum ekki setja okkur í þá stöðu að keyra þetta mál í gegnum þingið. Ég hef áhyggjur af því að það hversu snemma það er fram komið bendi til þess að nú skuli tryggt að það dagi ekki uppi í meðförum þingsins, því að það blasir auðvitað við öllum að málið er umdeilt, og það mjög í ýmsum þingflokkum.

Tvö mál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, af þeim sem reikna má með að komi til umhverfis- og samgöngunefndar, koma mér mest á óvart. Það er annars vegar þetta mál og hins vegar málið sem snýr að lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga. Ég hefði talið í báðum tilvikum skynsamlegt að hæstv. ráðherra stigi eitt til tvö skref til baka, leyfði málum að þróast í gegnum veturinn gagnvart leigubifreiðastjórunum, leyfði þessu Covid-ástandi að klárast og í rauninni hefði ég talið skynsamlegt að hæstv. ráðherra tæki sérstaklega til varna fyrir þá merkilegu stétt sem leigubílstjórar eru. En í hinu málinu, sem ég nefni til samanburðar, þarf ekkert að bíða eftir þróuninni í Covid eða neinu slíku. Það mál er bara vont að mínu mati, sama úr hvaða átt það er komið eða hvernig á það er litið. En eins og í fyrra bíð ég þess bara að málið komi til hv. umhverfis- og samgöngunefndar þar sem það fær tilhlýðilega meðferð og verður auðvitað skoðað af sanngirni og yfirvegun af öllum nefndarmönnum. Í nefndinni er meiri hluti fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna þannig að ef það er einarður vilji ríkisstjórnarinnar að keyra málið í gegn þá blasir við að það er afl til þess, bæði hér í þingsalnum og til þess að klára málið í nefnd. En ég vona að okkur gangi vel að vinna málið og að niðurstaðan verði eins góð og hún getur verið fyrir land og þjóð og þá sérstaklega leigubílstjóra landsins.