151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannvirki.

17. mál
[19:30]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur og athugasemdir. Og já, ég held að þetta séu góðar breytingar sem við leggjum hér til og þær eru hluti af heildaraðgerðum okkar í húsnæðis- og mannvirkjamálum. Önnur frumvörp hafa komið hér inn. Hlutdeildarlánin, sem við samþykktum í haust, voru líka hluti af þessum pakka. Hér eru væntanleg húsaleigulög og síðan sá hluti sem við komum með inn og lýtur að einfaldara regluverki og flokkun mannvirkja.

Hvað varðar skýrslu OECD, sem hefur verið að fara yfir mannvirkja- og regluverkshlutann í samstarfi við íslensk stjórnvöld, þá er hún, skulum við segja, á algerum lokametrum. Það stóð reyndar til að kynna hana opinberlega í síðustu viku en upp komu vandamál með sérfræðinga OECD sem hafa unnið þessa vinnu og ætluðu að koma hingað til að kynna hana. Vegna sóttvarna, Covid-19 og þeirra aðstæðna sem eru í samfélaginu, hefur það ekki tekist. Vonir standa til þess að það geti gerst hið allra, allra fyrsta.

En ríkisstjórnin er sammála því að þar séu margar gagnlegar tillögur sem hægt væri að fara lengra með án þess að tími gefist til að fara ítarlega yfir þær hér. En ég þykist vita að það verði gert í opinberri umræðu, í umræðum hér á Alþingi og í þingnefndum þegar sú skýrsla kemur fram.