151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

stéttarfélög og vinnudeilur.

159. mál
[19:33]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, en breytingarnar sem um ræðir snúa eingöngu að þeim ákvæðum laganna er lúta að Félagsdómi.

Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu af nefnd sem skipuð var í því skyni að bregðast við athugasemdum ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu, GRECO, frá 28. mars 2013, og lutu að því fyrirkomulagi sem viðhaft er hér á landi við skipun dómara í Félagsdóm. Nefndina skipuðu fulltrúar frá samtökum aðila vinnumarkaðarins sem og félagsmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Þrátt fyrir að nefndinni væri einungis ætlað að leggja til tilteknar breytingar í tengslum við skipun dómara í Félagsdóm taldi nefndin nauðsynlegt að leggja jafnframt fram aðrar breytingar á ákvæðum laganna sem lúta að Félagsdómi þar sem litlar breytingar hafi orðið á þeim ákvæðum frá setningu laganna árið 1938.

Með frumvarpinu er m.a. lagt til breytt fyrirkomulag við skipun dómara í Félagsdóm til samræmis við tillögur nefndarinnar. Þykja breytingarnar mikilvægar til að tryggja enn betur sjálfstæði og óhlutdrægni Félagsdóms frá því sem nú er, á sama tíma og sérstöðu dómsins er viðhaldið gagnvart almennum dómstólum.

Lagt er til að ráðherra skipi fimm dómara í Félagsdóm. Af þessum fimm dómurum er gert ráð fyrir að Hæstiréttur tilnefni þrjá, þar af forseta og varaforseta dómsins, og að þeir skuli allir skipaðir ótímabundið. Þá er áfram gert ráð fyrir að tveir dómarar séu tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambandi Íslands hins vegar, til þriggja ára í senn, en gert er ráð fyrir að ráðherra fari með hina formlegu skipun.

Enn fremur er lagt til að kröfur hvað varðar almennt hæfi dómara við Félagsdóm verði auknar frá því sem nú er, en samkvæmt gildandi lögum eru gerðar talsvert minni kröfur til hæfis dómara við Félagsdóm en gerðar eru til hæfis dómara við almenna dómstóla. Þykir þetta mikilvægt þar sem niðurstaða Félagsdóms er endanleg og verður henni ekki áfrýjað til annarra dómstóla. Í því sambandi er lagt til að þeir dómarar sem Hæstiréttur tilnefnir skuli vera skipaðir dómarar við Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm. Einnig er lagt til að kröfur hvað varðar hæfi þeirra dómara sem tilnefndir eru af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins verði auknar frá því sem nú er.

Þá eru lagðar til ýmsar aðrar breytingar sem miða að því að auka skilvirkni Félagsdóms og skýrleika ákvæða laganna sem lúta að dómnum.

Virðulegur forseti. Félagsdómur gegnir því mikilvæga hlutverki að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins. Það er því afar brýnt að traust til dómsins og þeirra sem þar sitja, ríki meðal aðila vinnumarkaðar. Ég trúi því að þær breytingar sem hér eru lagðar fram séu til þess fallnar að auka þetta traust enn frekar en nú er, en líkt og komið hefur fram er frumvarpið unnið í mjög nánu samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis að lokinni þessari umræðu.