151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

frumvarp um kynrænt sjálfræði.

[11:08]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum enn og aftur fyrir. Það er erfitt fyrir félags- og barnamálaráðherra að svara því af hverju þingmál annarra ráðherra fara fyrir ákveðnar nefndir í þinginu. Því er þannig háttað að hver og einn ráðherra sem mælir fyrir máli leggur til við þingið til hvaða nefndar það gangi. Það er síðan þingsins að ákveða ef það vill gera breytingar á því. Í þessu tilfelli hefur væntanlega verið óskað eftir því að málið færi til allsherjar- og menntamálanefndar en það er endanlega í valdi þingsins til hvaða nefndar það fer. Við treystum því með öll mál að það séu fulltrúar allra flokka í öllum nefndum — eða áheyrnarfulltrúar, af því að ég fékk svip frá hv. þingmanni. Það ætti þá ekki að vera loku fyrir það skotið að málin séu tekin fyrir og það er hægt að kalla eftir samstarfi við aðrar nefndir eða eitthvað slíkt. En þetta held ég að sé eitthvað sem þingmaðurinn verður að beina til þingsins eða yfirstjórnar þess. Ég hef ekki svör á reiðum höndum við þessu.