151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

tímasett aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

24. mál
[11:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir upphafsræðuna um þessa þingsályktunartillögu sem hann er fyrsti flutningsmaður að, en aðrir þingmenn Miðflokksins standa einnig að. Mig langar örstutt að koma inn á nokkur atriði. Það er mikilvægt, ekki síst nú á tímum þegar efnahagslífið og atvinnulífið okkar berst í bökkum til að halda fólki í vinnu, til að halda samfélaginu gangandi, að menn einhendi sér í að einfalda umhverfi fyrirtækja og einstaklinga svo menn geti sett á stofn fyrirtæki og að þrátt fyrir allt verði hvati til þess að láta reyna á slíkt í stað þess að þurfa að ganga á milli Heródesar og Pílatusar, milli alls konar stofnana og aðila, til að fá leyfi fyrir hinu og þessu. Þetta þarf að einfalda. Við þurfum að einfalda og hvetja til þess að einstaklingar og fyrirtæki fari í framkvæmdir og stofni fyrirtæki.

Og talandi um framkvæmdir þá þarf sérstaklega að horfa til þess að stytta og einfalda, eða auðvelda í það minnsta, og létta þeim lífið sem eru í framkvæmdahug. Það þarf að vera miklu einfaldara en er í dag að koma af stað stórum sem litlum framkvæmdum. Allt of mikill tími fer í kærur og kröfugerðir og eitthvað slíkt. Með því er ég ekki að segja að það eigi endilega slá af umhverfiskröfum og einhverju þess háttar. Það þarf bara að láta þetta ganga miklu hraðar fyrir sig en gert er. Það er t.d. hægt að gera með því að einfalda alla ferla og einfalda kerfið.

Það er líka mikilvægt að menn fari í það að einfalda allt regluverk sem býr til kostnað fyrir þá sem stofna vilja fyrirtæki eða fara út í einhvern rekstur eða framkvæmdir. Kostnaðurinn sem því fylgir að fá hugmynd og hrinda í framkvæmd getur verið gríðarlega mikill og þarna þarf að einfalda allt regluverkið, svo dæmi sé tekið.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að hagsmunaaðilar á vinnumarkaði hafi bent á að stjórnvöld innleiði EES-reglugerðir með allt of íþyngjandi hætti fyrir almenning. Í raun ætti ríkisvaldið að setja sér það markmið, og hafa það sem skrifaða reglu, að þessar reglugerðir séu innleiddar með eins einföldum, augljósum og litlum áhrifum og mögulegt er, að það eigi að vera reglan.

Mig langar líka að nefna að það er jú ágætt að ráðherrar í ríkisstjórn hafi einbeitt sér að því að taka til í geymslunum sínum og fækka lögum eða reglugerðum sem eru óþarfar, ekkert er unnið eftir og hafa enga virkni eða tilgang. En það er í sjálfu sér ekki einföldun regluverks. Það þarf að sameina reglur og raunar fækka reglugerðunum og það þarf að stytta alla ferlana sem menn þurfa að glíma við þegar kemur að því að eiga við kerfið.

Herra forseti. Mig langar líka, að nefna það í þessu sambandi, af því að það getur tengst því óbeint, að þessu gæti fylgt ákveðin hagræðing. Ég tala nú ekki um ef einföldun regluverks gæti orðið til þess að menn fari í að sameina stofnanir og sameina verkefni hjá ríkisvaldinu. Þá gæti það orðið til þess að draga saman útgjöld ríkissjóðs. Ég vil benda á að það geta líka falist mikil tækifæri í því að ríkisvaldið einsetji sér að draga úr því að ráða í störf sem losna hjá hinu opinbera. Það getur t.d. farið vel saman við að lengja þann tíma sem starfsmenn geta unnið hjá ríkinu, eins og bent hefur verið á í þessum þingsal, t.d. í 73 ár í einhverjum tilvikum þar sem starfsmenn eru fullir starfsorku, þar sem verkefnin eru þannig og þar sem þörf er fyrir starfskraftinn. Á móti kemur að víða, og í langflestum tilfellum væntanlega, kærir fólk sig ekki um að vinna mikið lengur en kveðið er á um í lögum. Þá á markmiðið að vera að ráða helst ekki í störfin sem losna, samkvæmt svari við fyrirspurn sem ég setti hér fram.

Ég geri mér grein fyrir að vitanlega er ekki hægt að sleppa því að ráða í öll störf. Ég er ekki svo galinn að halda það. En eitthvað er klárlega hægt að draga saman eða þá að fækka endurráðningum. Ég vil benda á að samkvæmt svari sem ég fékk frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á síðasta þingi munu 726 starfsmenn ríkisins ná 70 ára aldri fram til ársins 2022. Þarna eru milljarðar í húfi. En ég ítreka að ég er ekki að halda því fram að ekki sé þörf á að ráða í eitthvað af þeim störfum sem þarna er um að ræða.

Herra forseti. Það sem mestu skiptir er að komin er fram þingsályktunartillaga sem ætti að vera hvati fyrir ríkisvaldið, fyrir núverandi ríkisstjórn til að bretta upp ermar og einfalda regluverkið, ekki láta duga að taka til í geymslunni heldur, eins og lagt er til í þingsályktunartillögunni, að forsætisráðherra hafi forgöngu og geri aðgerðaáætlun um hvernig við ætlum að einfalda regluverkið. Það er mjög íþyngjandi. Þeir eru margir einstaklingarnir og fulltrúar fyrirtækja sem hafa kvartað, örugglega ekki bara við þingmenn Miðflokksins heldur við þingmenn flestra annarra flokka, yfir því hvað regluverkið á Íslandi sé íþyngjandi fyrir þær hugmyndir og þá starfsemi sem þeir vilja setja á fót.