151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

tímasett aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

24. mál
[12:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég átti eftir að minnast á nokkur atriði til viðbótar sem ekki gafst tími til að nefna í fyrri ræðu minni. Mér finnst þetta áhugavert málefni, hvernig við tökumst á við hið svokallaða bákn, hvernig við einföldum hlutina, hvernig við einföldum reglur og framkvæmd og reynum að nýta almannafé, skattfé almennings og fyrirtækja, eins og best verður á kosið. Það á auðvitað að gera þá kröfu til stjórnvalda á hverjum tíma að almannafé, skattfé borgaranna, sé varið á eins skynsamlegan hátt og unnt er. Við þurfum alltaf að vera vakandi í þeim efnum, alltaf.

Ég ætla í fyrsta lagi að ræða örlítið um byggingar. Ég man þá tíð að Happdrætti Háskóla Íslands gekk aðallega út á það að safna fé til að byggja nýja byggingu sem nauðsynlegt var að byggja við háskólann. Það var hið besta mál og maður tók þátt í þessu, að sjálfsögðu, og vildi veg háskólans sem mestan. Hver er þörfin í dag? Ég held að það mætti taka það aðeins inn í þessa tillögu þegar hún kemur til nefndar. Hver er þörfin á byggingum í dag? Hver er þörfin á skólabyggingum? Sérstaklega tala ég þar um háskóla en einnig hugsanlega framhaldsskóla, hver er þörfin á því að byggja slíkar byggingar í dag? Þurfa þetta að vera stórar og miklar byggingar sem geta tekið við mörg hundruð nemendum? Nei, ég held ekki. Ég held nefnilega ekki. Nú er nám mikið stundað í fjarnámi, sérstaklega núna eftir þessa veiru, og ég held að það þurfi að hugsa þetta upp á nýtt. Og það á ekki bara við um skóla. Það á að sjálfsögðu einnig við um banka þar sem starfsemin fer mikið til fram í gegnum tölvur.

Er einhver þörf á öllum þessum byggingum? Má ekki nota þær og nýta undir eitthvað annað? Hver er þörfin? Er það ekki bara úrelt að byggja stanslaust einhverjar stofnanir þegar fólk er heima hjá sér í tölvunni og getur unnið heiman frá sér og búið einhvers staðar úti á landi? Hver er þessi þörf fyrir að byggja stanslaust? Er þetta ekki bara úrelt hugmynd? Þurfum við ekki bara að hugsa þetta upp á nýtt? Að sjálfsögðu þurfum við byggingar eins og íbúðabyggingar, ég er ekki að tala fyrir því að leggja það niður. Ráðuneytin, þurfa þau eins mikið húsnæði og fyrir 10 eða 20 árum? Þurfa þau svona mikið húsnæði? Ég efast stórlega um það. Svo heyrir maður af því erlendis að fyrirtæki hafa ekki einu sinni pláss fyrir alla sína starfsmenn vegna þess að gert er ráð fyrir því að helmingur starfsmanna sé heima við eða einhvers staðar annars staðar.

Ég held að það mætti taka þetta aðeins til skoðunar. Ég hef ýmislegt annað að segja og ætla kannski að drepa á nokkrum öðrum atriðum. Ég ætla einnig að drepa á því að hið opinbera verður sífellt að vera í hlutverki þjónustuaðila. Stofnanir ríkisins eiga að hafa það sem aðalmarkmið að þjóna almenningi, ekki hindra, tefja, endursenda, framsenda, salta og flækja, heldur þjóna. Það verður aldrei of oft brýnt fyrir mönnum.

Ég held því ekki fram, ég er síðasti maður til að halda því fram, að það sé einfalt mál og auðvelt að einfalda og draga saman í stjórnsýslunni. Ég vann þar í 30 ár, ég veit að það er ekki einfalt. Það eru mörg ljón í veginum og margir til að spyrna á móti, að sjálfsögðu. Þetta er ekki létt verk. Menn þurfa að hafa bein í nefinu, það er alveg ljóst. Mér er það ljóst. Ráðherrar þurfa að ráða í sínum ráðuneytum. Stjórnvöld þurfa að stjórna landinu. Ráðherrar mega helst ekki vera ráðalausir og stjórnvöld mega ekki vera stjórnlaus. Afdrifarík mál mega ekki vera á sjálfstýringu í ráðuneytum eða stefnumörkun mála í höndum starfshóps. Ráðherrar, pólitíkusarnir, verða að taka stjórnina í sínu ráðuneyti og stjórna eftir þeirri stefnu sem þeir voru kjörnir til að framfylgja. Það er grundvallaratriði. Það hefur einmitt viljað brenna við hjá þessari ríkisstjórn að stjórnkerfið sé á stjórnlítilli sjálfstýringu og ráðherrar og pólitíkusar eru sem farþegar aftast í langferðabílnum og hafa enga stjórn á því hvert ferðinni er heitið.