151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

tímasett aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

24. mál
[12:13]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Ég kem hér upp til að þakka fyrir góða umræðu og kannski draga fram nokkur atriði sem komu fram við umræðuna. Fyrst ætla ég þó að nefna eitt atriði sem mér láðist að nefna í fyrri ræðu minni, og það er það hversu mikilvægt það er að menn nýti þá leiðsögn sem birtist í þeim gögnum sem liggja fyrir, þar sem er ekki bara fjallað um vandamálið heldur er bent á raunhæfar lausnir á því hvernig hægt er að tryggja að markmiðin náist fram. Ég nefni þar sem dæmi regluna um að ef einu íþyngjandi atriði er bætt við þá þurfi tvö að fara út á móti. Þetta er regla sem menn hafa verið að innleiða í Bretlandi og við vorum sammála um þetta í ríkisstjórn á sínum tíma þegar verið var að vinna að þessu. Það er dæmi um eitthvað sem hefði strax mjög raunveruleg áhrif. Menn þyrftu þá að hugsa sig tvisvar um í hvert skipti sem þeir ætluðu að bæta inn einhverju nýju sem væri íþyngjandi fyrir almenning vegna þess að þá þyrfti að taka út tvennt á móti.

Þeir þingmenn sem fjölluðu um málið komu með mjög áhugaverða og góða punkta inn í þessa umræðu, ég næ ekki að rekja það allt saman. En ég vil nota tækifærið til að taka undir með hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni um mikilvægi þess að setja þetta í samhengi við byggðamálin því að samdráttur hefur ítrekað og lengi átt sér stað á landsbyggðinni á meðan báknið heldur áfram að þenjast út hér á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í Reykjavík, og þannig eykst hallinn. Þannig eykst báknið hér og með því er landsbyggðin veikt um leið. Þetta er mikið grundvallaratriði þegar kemur að því að taka á bákninu, að dreifa því meira um leið og ná betra jarðsambandi fyrir það og gera það betur í stakk búið til að sinna hlutverki sínu.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi þá staðreynd að mjög margir opinberir starfsmenn muni ljúka störfum á næstu misserum og árum og þá gefist tækifæri til að draga saman báknið án þess að þurfa að segja mörgum upp í þeim tilgangi. Þar mætti hugsa sér einhverja reglu á borð við „einn inn, tveir út“. Um leið og tveir hafa lokið störfum geti kerfið sótt um að fá einn nýjan starfsmann á móti. Ég varpa þessu bara fram sem hugmynd, en það er a.m.k. ljóst að ef ekkert er að gert þá heldur báknið áfram að vaxa, jafnvel þrátt fyrir það tækifæri sem felst í því að menn ljúki störfum.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hafði, að því er virtist, áhyggjur af EES-regluverkinu, að menn væru ekki nógu duglegir í innleiðingum þar. Ég kem aðeins inn á það á eftir. Hv. þingmaður sagði þó eitt og annað jákvætt um þessa tillögu, en tíndi svo til hin ýmsu mál þar sem hún taldi að Miðflokkurinn hefði verið á móti því að draga úr bákninu. Sum þessara mála kannaðist ég ekkert við að við værum á móti, en í öðrum skiptir auðvitað höfuðmáli hvernig hlutirnir eru gerðir. Og það að telja að leigubílstjórar séu hluti af bákninu finnst mér afskaplega undarleg nálgun hjá hv. þingmanni. Hv. þingmaður sagði að með umræðu um báknið værum við með stolnar fjaðrir enda hefðu einhverjir Sjálfstæðismenn áður notað þetta orð. Það er alveg rétt að Sjálfstæðismenn vöktu máls á þessu á sínum tíma, fyrir áratugum síðan, en svo var þetta bara komið í endurvinnslutunnuna og þaðan björguðum við því. Ég held að hv. þingmaður ætti bara að vera glaður með að við skulum nýta þetta orð og vekja hér athygli á mikilvægi þessa markmiðs, enda báknið auðvitað orðið miklu stærra nú en það var þegar Sjálfstæðismenn ætluðu að gera eitthvað í því fyrir áratugum síðan.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson fór yfir mjög mörg praktísk atriði, þ.e. raunveruleg dæmi um skaðlegar afleiðingar þess þegar báknið vex of mikið og regluverkið verður of flókið. Ég hef ekki tíma til að rekja þau dæmi öll, enda gerði hv. þm. Birgir Þórarinsson það mjög vel. Ég ætla að nefna eitt dæmi sem hann tók, sem eru áhrifin af regluverkinu varðandi hælisleitendur. Það er dæmi um hvernig of flókið og óskilvirkt regluverk getur búið til keðjuverkunaráhrif, eins og við höfum séð að undanförnu. Vegna þess hve kerfinu gengur illa að takast á við umsóknir um hæli þá fjölgar umsóknum og vandi kerfisins verður enn meiri og það heldur jafnvel áfram að flækja málin fyrir sér. Þarna myndi einfaldara, skýrara og framkvæmanlegra regluverk gagnast öllum, samfélaginu og auðvitað hælisleitendum, sem vissu þá hvaða reglur væru í gildi og þyrftu ekki að bíða hér jafnvel árum saman eftir því að fá svo afsvar.

Herra forseti. Loks nefndi hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir EES-samninginn, sem ég kom inn á áðan þegar ég var að ræða um ræðu hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Þar er mikilvægt að benda á það sem kemur einmitt fram í þessari tillögu, að rétt eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði er oft verið að innleiða þessar reglugerðir með meira íþyngjandi hætti en þyrfti að vera. Það er heimatilbúinn vandi í því tilviki. Auðvitað þekkjum við að hér streymir inn alls konar vitleysa frá Evrópusambandinu sem stækkar báknið, en í mörgum tilvikum er það rétt sem bent er á, að aukið er á vandann með innleiðingunni hér heima. Þess vegna er gert ráð fyrir að sérstaklega verði tekið á því. Og ég get glatt hv. þingmenn, sem höfðu áhyggjur af EES-málum, með því að gert er ráð fyrir því, óhjákvæmilega, að EES-málin verði undanþegin þessari „eitt inn, tvö út“-reglu, einfaldlega vegna þess að annað væri illframkvæmanlegt. En þá fylgir sögu að passa þarf upp á að ekki sé verið að innleiða þessar EES-reglugerðir umfram þar sem nauðsynlegt er vegna þátttöku okkar í EES-samningnum.

Hér er um að ræða mjög heildstæðar tillögur sem taka á gríðarlega stóru viðfangsefni, aðkallandi viðfangsefni. Ef ríkisstjórnin sér sér fært að klára þetta mun það hafa áhrif á ótal svið samfélagsins, bæta líf fólks, auka verðmætasköpun í landinu og bæta kjör í þessu samfélagi og styrkja stöðu ríkisins. Að því sögðu vona ég að sem flestir þingmenn sjái sér fært að taka þátt í þeirri vinnu sem fram undan er og að tillagan verði samþykkt eins fljótt og kostur er.