151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

almannatryggingar.

25. mál
[12:41]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er sammála því að þetta varðar auðvitað öll svið þjóðlífsins. Þegar þeir sem telja að of langt sé gengið fara að reikna saman kostnaðinn komast þeir að einhverri brúttótölu en þeir átta sig ekki á því hver nettóniðurstaðan er. Hún felst í því að ýmislegt sparast á móti sem er samt sem áður kannski hálfgert aukaatriði. Aðalatriðið er að ríkt land eins og Ísland, 11. ríkasta land í heimi, á bara ekkert að una við fátækt sem er í raun stýrt af Alþingi og ríkisvaldinu. Og talandi um 69. gr. almannatryggingalaga þá er ég alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni. Auðvitað ætti að miða við launaþróun en ekki bara verðbætur eins og á að gera nú um áramótin. Manni myndi a.m.k. líða betur ef kjörin okkar lytu alla vega því sama, að við tækjum a.m.k. bara við hækkunum sem miðuðu við verðbætur og verðbólgu en ekki hækkun á launamarkaði. Mér finnst þetta vera grundvallarmál en það er dálítið erfitt að eiga þannig umræðu vegna þess að í augnablikinu situr ríkisstjórn þar sem annars vegar er harður hægri flokkur sem vill ekki sjá þetta og hins vegar eru tveir flokkar sem mér finnst aðhyllast miklu geðþekkari pólitík og hafa oft sýnt töluverða félagshyggju. Ég hef því ákveðnar væntingar í brjósti um að þaðan komi raddir sem a.m.k. ýti okkur fram á við.