151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:36]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tel að þetta sé góður rammi og nokkuð skýr en hann bjóði upp á ákveðinn sveigjanleika. Mér finnst sveigjanleiki vera jákvæður. Ég tel að ósveigjanleiki sé neikvæður. Þinginu er vissulega eftirlátið að setja þessar leikreglur en hins vegar þarf þrjá fimmtu hluta atkvæða til að fara að krukka í reglunum. Í þessu er einnig að breytingar myndu ekki koma til framkvæmda fyrr en einu ári eftir gildistöku þannig að það er sveigjanleiki í því líka. Ég tel að það sé gott fyrir kjósendur að hafa möguleika. Í kosningum eru kjósendur að segja hug sinn. Þeir eru að reyna að velja frambjóðendur og velja fulltrúa sem standa fyrir þau lífsviðhorf sem þeir aðhyllast sjálfir. Þeir eru að gefa umboð sitt til lagasetningar. Það er einhver mikilvægasta trúnaðarstaða sem til er í samfélaginu að bara yfirleitt taka þátt í kosningum. Það er vandasöm trúnaðarstaða. Þá er mjög mikilvægt að kjósendur eigi ýmsa möguleika þar umfram það sem nú er. Við skulum ekki gleyma því að við búum nú við ástand (Forseti hringir.) sem ég hygg að ég og hv. þingmaður deilum óánægju með.