Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

almannatryggingar.

28. mál
[16:43]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir málflutning hans. Ég vil koma í stutt andsvar til að taka af allan vafa. Þetta dæmalausa frumvarp sem samþykkt var í vor, mál 666, var eingöngu um eldri borgara. Og eins komið hefur fram fá þeir sem fá greiddan viðbótarstuðning, aðeins 90% af réttindum sínum, krónu á móti krónu skerðingu. Og það sem er alvarlegast í þessu er þeir eru settir í ákveðið ættjarðarfangelsi, þeir mega ekki fara úr landi. Meira að segja verður að fá maka þeirra til að njósna um þá og láta vita ef þeir ætla að fara úr landi í langan tíma, því að þá missa þeir réttindin, sem ég myndi telja að væri eiginlega bara brot á alþjóðalögum. Ég skil ekki hvernig það á að vera hægt. Ef þeir einstaklingar sem verið hafa í ellilífeyriskerfi annars staðar á Norðurlöndum og fá eitthvað úr lífeyriskerfi þar þá dregst það frá hérna heima. Þannig að þeir fá ekki ótakmarkað hér ásamt lífeyri frá útlöndum. Það er á hreinu að þetta mál, nr. 28 á þingskjali 28, eins og það er lagt fram núna, er um að öryrkjar fari inn í þetta kerfi, að 90% reglan hverfi, og eins þessi króna á móti krónu skerðing verður ekki inni í kerfinu, þannig að þetta verður svolítið mannúðlegra kerfi. Jú, að vísu er spurning um 65 aura á móti krónu, en ég vona svo heitt og innilega að við sjáum til þess að það detti einnig út.