151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

græn utanríkisstefna.

33. mál
[17:51]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er auðvelt að deila þeirri sýn. Ég hef stundum verið svolítið leiðinlegur við hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að þrátt fyrir að sumt sem hann hefur gert á undanförnum árum hafi verið fínt hefur mér fundist vanta vilja til að sinna ákveðnum utanríkispólitískum aktívisma, svo ég sletti, með leyfi forseta. Við þurfum nefnilega aðgerðir á alþjóðavísu. Við þurfum að vera óhrædd við að stíga fram og segja: Við viljum gera þetta.

Úr því að við tölum aðeins um Kína þá hafa kínversk stjórnvöld sýnt gífurlega mikinn vilja á undanförnum mánuðum til að taka sig á í loftslagsmálum. Þau standa náttúrlega frammi fyrir mjög fjölþættu vandamáli, þau eru með mjög ört vaxandi millistétt með vaxandi orkuþörf en hafa samt sagst ætla að reyna að ná hámarki í CO2-losun sinni árið 2030, sem er mjög flott. Af hverju erum við þá ekki í samtali við kínversk stjórnvöld núna um það hvernig Ísland getur komið að því að hjálpa þeim að ná því markmiði og hvernig við getum reynt að stilla alþjóðasamvinnu okkar eftir því? Hægt er að nálgast það á ótal vegu en fyrst og fremst þarf maður að vilja að gera það. Það er það sem dönsk stjórnvöld hafa gert og það er það sem ég vona að við gerum með þessu.

Og fyrst ég nefndi ágreining fyrir Alþjóðaviðskiptastofnuninni þá voru t.d. bara núna í ágúst leidd til lykta þar mál sem snúa að skógarhöggi. Það hefði verið miklu betra fyrir alþjóðasamfélagið ef dómstóll Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefði verið virkur vegna þess að fyrir vikið var niðurstaðan í rauninni tvíhliða frekar en almenn. Það er bara ein af leiðunum þar sem Ísland gæti beitt sér, að óska eftir því að þetta vandamál yrði leyst.