151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

fjárhagsstaða sveitarfélaga.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Nú hefur staðið yfir samtal ríkis og sveitarfélaga allt frá upphafi faraldursins. Auðvitað eru sveitarfélögin gríðarlega mikilvæg í því m.a. að veita þjónustu sem skiptir máli vegna faraldursins. Ég vil nefna sem dæmi það sem kemur fram í nýlegri greinargerð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að þessi kreppa hafi meiri áhrif á konur en karla og meiri áhrif á ungt fólk en eldra fólk. Hins vegar skiptir þar sérstaklega máli að þar sem skólum hefur verið haldið opnum eru áhrifin á konur og yngra fólk minni en annars staðar, bara svo að ég taki það sem eitt dæmi um mikilvægi þeirrar þjónustu og starfsemi sem sveitarfélögin standa undir.

Það hefur auðvitað verið samtal í gangi og það var unnin mjög góð greinargerð um ólíka stöðu sveitarfélaga. Við sem höfum verið lengi hér í þessum sal vitum að auðvitað er staðan mjög mismunandi milli sveitarfélaga. Það er ekki bara færðin sem þar skiptir máli heldur munar þetta auðvitað ekki minnstu fyrir sveitarfélög sem háðust eru ferðaþjónustu eða flugsamgöngum. Ég nefni Suðurnesin, en líka smærri sveitarfélög, til að mynda á Suðurlandi, Skútustaðahrepp, sem dæmi um sveitarfélög sem hafa staðið verr en önnur, í raun og veru vegna mikils þunga og áhrifa ferðaþjónustu og fluggeira á efnahag þeirra. Þess vegna hefur sérstaklega verið komið til móts við annars vegar þau sveitarfélög sem verst standa vegna hruns í ferðaþjónustu, sem eru sex sveitarfélög, og hins vegar Suðurnesin. Síðan hefur verið gripið til almennra aðgerða, m.a. vegna málefna fatlaðs fólks, m.a. vegna kostnaðar við fjárhagsaðstoð, m.a. vegna áætlunar um eflingu sveitarstjórnarstigsins og stuðnings til sveitarfélaga sem glíma við hvað mesta fjárhagsörðugleika.

Það sem fram undan er er hins vegar að meta stöðuna, (Forseti hringir.) m.a. í samanburði við önnur Norðurlönd því að það kemur upp úr dúrnum, og við höfum töluvert rætt um samanburð við önnur Norðurlönd, að þessum málum er töluvert ólíkt fyrir komið, bæði milli Norðurlandanna (Forseti hringir.) og ekki síst milli Íslands og annarra Norðurlanda. Ég ætla að fá að koma aðeins að því í seinna svari.