151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

hugsanleg stækkun Norðuráls.

[15:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem veldur mér nokkrum vonbrigðum vegna þess að í þetta sinn er ég að ræða við forsætisráðherra sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar. Þess vegna kemur mér á óvart þegar hún segir að þetta mál sé ekki á hennar borði. Nú veit ég að þetta tilheyrir fagráðherra, en ég segi aftur: Ég er að ræða við hæstv. forsætisráðherra sem er oddviti og verkstjóri þessarar ríkisstjórnar. Þess vegna hlýt ég að spyrja aftur hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að þetta mál verði tekið upp á ríkisstjórnarvettvangi.

Mig langar líka stinga inn bara til upplýsingar, ég veit að hæstv. ráðherra veit það alveg örugglega, að það er verið að vinna að nýjung á Íslandi í áliðnaði sem Jón Hjaltalín Magnússon hefur haft forgöngu um og þarf örugglega núna aðstoð við að þróa frekar, en lofar mjög góðu. Ég held einmitt að sú þekking, auk þess sem við eigum orkuna tilbúna, það er allt klárt uppi á Tanga, þýði að nú er ekki annað en að hæstv. ráðherra taki þetta inn á ríkisstjórnarfund og beiti sér fyrir ákvörðunum í þessu máli.