151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Vissulega man ég eftir þessari þingsályktun sem hv. þingmaður flutti í félagi við fleiri og var samþykkt. Það er dómsmálaráðuneytið sem fer með málið þannig að ég get því miður ekki komið með neinar haldbærar skýringar á því aðrar en þær að ég veit að þetta hefur tekið tíma. Þetta hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar. Ég veit að það hefur tekið tíma því að málið er töluvert flókið. Hvort heimsfaraldur hefur eitthvað tafið fyrir verkefninu kann ég ekki að útskýra en ég veit að einhver vinna hefur verið í gangi. Ég skal kanna það á vettvangi ríkisstjórnar hvort við megum eiga von á slíku frumvarpi á þessu þingi því að ég hef í raun og veru engar haldbærar skýringar á af hverju þetta er ekki á þingmálaskrá. Ég þekki það ekki alveg og verð bara að viðurkenna það hér. En ég skal með gleði taka þetta upp við dómsmálaráðherra og kanna það hvar vinnan stendur.