151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að fá taka þátt í þessari umræðu í dag og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrsluna sem hér liggur til grundvallar. Eins og fram hefur komið í ræðum fleiri hv. þingmanna hér á undan mér hefur þörfin fyrir að ræða þessa hlið mála auðvitað vaxið eftir því sem liðið hefur á þann tíma sem við glímum við veiruna. Bæði þörfin og tilefnið er kannski ríkara í dag en var í vor. Sú skýrsla sem hér er til umræðu, álitsgerð Páls Hreinssonar, er mjög gagnleg sem innlegg í þá umræðu. Hún er gagnleg sem ákveðinn grunnur að umræðu sem við getum síðan haldið áfram með.

Eins og fram hefur komið gerir skýrsluhöfundur, Páll Hreinsson, þann fyrirvara í upphafi að hann sé ekki að fjalla um lögmæti einstakra aðgerða sem gripið hefur verið til á undanförnum mánuðum. Það sé auðvitað verkefni dómstóla að skera úr um það hvort þær hafi allar verið innan marka. En hann fer hins vegar út frá almennum fræðilegum forsendum yfir þau réttarsvið og þær réttarreglur sem hlýtur að reyna á og það er, held ég, mikilvægt fyrir okkur til að stíga næstu skref og taka næstu ákvarðanir.

Ég vildi fyrst segja að í þessum málum erum við í svolítið annarri stöðu í dag en við vorum þegar veiran gerði fyrst vart við sig á útmánuðum á þessu ári. Það er auðvitað rétt sem fram hefur komið að enn þá er margt óvíst í sambandi við veiruna og útbreiðslu hennar en við vitum þó ýmislegt meira og betur í dag en við gerðum í febrúar eða mars. Að sama skapi höfum við haft tækifæri til að sjá árangur einstakra ráðstafana sem gripið hefur verið til á þessu tímabili. Við vitum einfaldlega meira í dag en við vissum fyrir sjö, átta mánuðum síðan þó að vissulega séu enn þá margir þættir óvissir í sambandi við veiruna, útbreiðslu hennar og aðgerðir og áhrif þeirra. Aðstaða okkar í dag er þannig töluvert önnur en hún var í febrúar, mars. Það þýðir m.a. að út frá ýmsum reglum stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttarins er hægt að gera meiri kröfu til ákvarðana sem teknar eru í dag en var hægt að gera fyrir um sjö, átta mánuðum síðan, þ.e. ef ákvarðanir sem teknar eru í dag eru metnar er hægt að gera strangari kröfur til þeirra en til ákvarðana sem voru teknar í upphafi faraldursins. Við skulum hafa þetta í huga. Þetta þýðir að hægt er að ætlast til þess af stjórnvöldum, okkur hér í þinginu, ríkisstjórn og öðrum þeim sem fara með opinbert vald í þessu sambandi, að ákvarðanir séu teknar, hvað eigum við að segja, með meiri yfirvegun og meiri undirbúningi en kannski var hægt að ætlast til þegar faraldurinn var að fara í gang.

Þetta skiptir máli þegar við leggjum mat á einstakar aðgerðir og aðgerðirnar í heild. Það skiptir máli þegar við veltum fyrir okkur því hvernig við getum mátað ýmsar meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttarins við ákvarðanatöku í þessu sambandi. Þá erum við með í huga kannski helst lögmætisregluna, sem felur það í sér að fyrir opinberum, íþyngjandi ákvörðunum verður að vera skýr lagastoð, ekki bara einhver lagastoð heldur skýr lagastoð, og síðan að mælikvarðar meðalhófsreglunnar séu lagðir á einstakar ákvarðanir, hvort sem þær birtast í reglugerðum eða einstökum ákvörðunum sem eru teknar á grundvelli reglugerða.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það, það er ágætlega gerð grein fyrir því í skýrslu Páls Hreinssonar, hver meginsjónarmiðin eru, hvert stóra samhengið er. Það er auðvitað að farsóttir og viðbrögð við þeim gera að verkum að heimilt er að grípa til ýmissa aðgerða sem ekki væru taldar heimilar undir venjulegum kringumstæðum. Það liggur í þeim stjórnarskrárákvæðum sem þetta varða í bæði skráðum og óskráðum reglum stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttarins að ástand sem skapast vegna farsótta eða faraldurs getur kallað á viðbrögð þar sem reynir á og jafnvel er vikið til hliðar borgaralegum réttindum, frelsisréttindum, sem við teljum að jafnaði sjálfsögð. Um þetta er ekki ágreiningur. Það er ekki ágreiningur um að þessi grundvallar borgaralegu réttindi eru vernduð í stjórnarskrá og samkvæmt grundvallarreglum réttarríkisins eru þau réttindi vernduð en það má skerða þau þegar um er að ræða ástand eins og við höfum verið að glíma við. Það þýðir hins vegar að þegar réttindin eru skert á grundvelli laga og annarra fyrirmæla stjórnvalda sem eiga sér stoð í lögum þarf engu að síður að gæta þess að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er í hverju tilviki fyrir sig. Þá eru, eins og Páll Hreinsson rekur ágætlega í texta sínum, ákveðnir mælikvarðar sem þarf að leggja á aðgerðirnar. Það er ekki hægt að segja að skapalónið sé eitt eða algilt eða að með vissu sé hægt að segja fyrir fram hvernig hvert tilvik yrði metið fyrir sig. Ef mál kæmi fyrir dómstóla yrði það metið út frá aðstæðum, hvaða vitneskja var fyrir hendi o.s.frv.

Það þarf hins vegar alltaf að fara fram einhvers konar mat í þessu sambandi. Hvað meina ég með því? Ég meina að það er ekki nóg að segja: Hér er alvarlegt ástand og það þýðir að það má gera hvað sem er. Það er auðvitað ekki svo. Aðgerðirnar sem gripið er til hverju sinni þurfa að vera virkilega til þess fallnar að ná því markmiði sem að er stefnt. Ef hægt er að velja milli mismunandi úrræða ber að velja vægasta úrræðið sem getur komið að gagni og í þriðja lagi, þegar búið er að velja úrræðið, verður að gæta þess að beita því ekki af meiri hörku eða með meira íþyngjandi hætti en nauðsyn er á.

Þetta eru ákveðnar leiðbeiningarreglur um það hvernig á að meta svona hluti. Það kallar á að þegar gripið er til aðgerða fari fram einhvers konar mat af þessu tagi. Eins og Páll Hreinsson bendir á í sínum texta er auðvitað eðlilegt að þegar ákvarðanir eru teknar í óvissu liggi ekki allt fyrir í þessu efni þannig að það verður að ætla stjórnvöldum ákveðið svigrúm í þessum efnum. Því meiri sem óvissan er, því meira verður svigrúmið. Það liggur ljóst fyrir. En það þýðir hins vegar ekki að matið þurfi ekki að eiga sér stað. Matið þarf að eiga sér stað þegar ákvarðanir eru teknar, miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir eða hægt er að ætlast til að liggi fyrir þeim tíma.

Þetta vildi ég undirstrika í þessu sambandi. Þær meginreglur sem við byggjum bæði stjórnskipun okkar og stjórnsýslu á í þessum efnum eiga við bæði á erfiðum tímum og á venjulegum tímum. Það er ekki svo að erfiðir tímar geri það að verkum að við getum kippt varúðarreglunum úr sambandi. Það má ekki líta svo á. Það má eiginlega öfugt halda því fram að því alvarlegra sem ástandið er, því mikilvægara sé að menn séu meðvitaðir um varúðarreglurnar og gæti sín að þessu leyti.

Að þessu sögðu þá fagna ég því að það standi til að fara í endurskoðun á sóttvarnalöggjöfinni. Mér finnst að í texta Páls Hreinssonar komi fram ákveðnar ábendingar sem þurfi að taka tillit til í því sambandi. Ég fagna því líka að það eigi að fara í tiltölulega hraða vinnu við að endurskoða þau ákvæði sem mestu máli skipta í þessu sambandi vegna þess að eins og ég hef áður látið í ljósi þá tel ég að þarna geti verið um að ræða veikar lagastoðir fyrir sumum þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Ég hef bent á það bæði á fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og reyndar í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið fyrir tveimur mánuðum. Þar kann að þurfa að bæta úr og bæta úr hratt. Það þýðir ekki að mínu mati að bíða eftir heildarendurskoðun sóttvarnalaganna heldur er mikilvægt að bæta hratt úr þeim atriðum þar sem lagastoð fyrir einstökum íþyngjandi aðgerðum kann að vera veik eins og mér sýnist hún vera.

Ég læt þessari ræðu lokið en fagna því að fá tækifæri til að ræða þetta og vona að við fáum frekari tækifæri til að ræða þessi mál hér á næstunni.