151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Vernd borgararéttinda er aldrei mikilvægari en þegar fólk er hrætt. Þá er það tilbúið að fórna réttindum sínum. Fólk er réttilega hrætt. Á vogarskálinni er líf og heilsa, þar eru einnig önnur mannréttindi og frelsi fólks, athafnafrelsi, ferðafrelsi, atvinnufrelsi, eins og var komið inn á í álitsgerð Páls Hreinssonar sem við erum að ræða hér. Sem Pírati vil ég benda fyrst á að í grunnstefnu okkar segir að okkur beri að vernda og efla borgararéttindi, auka aðkomu almennings að ákvörðunum sem hann varða og að vinna það allt saman á þann hátt að við tökum vel upplýstar ákvarðanir, grundvallaðar á gagnrýninni hugsun.

Sóttvarnaaðgerðirnar varða okkur öll og víkja til hliðar mikilvægum réttindum. Það jákvæða við það að nálgast málið svona er að upplýst umræða er bæði grundvöllur farsælla sóttvarnaaðgerða og verndar borgararéttindi á tímum veirunnar. Mikilvægasta atriðið sem mig langar að benda fólki á í þessu ljósi, í álitsgerðinni, er sú meginregla að borgarar mega gera hvaðeina sem ekki er bannað í lögum en stjórnvöld geta einvörðungu íþyngt borgurum með stjórnvaldsákvörðun ef hún byggist á viðhlítandi heimild í lögum og er framfylgt samkvæmt lögum. Þetta er grundvallaratriði. Mannréttindi eru á vogarskálunum, líf, heilsa, önnur mannréttindi, frelsi. Því endurtek ég á mannamáli: Fólk má gera hvað sem það vill svo framarlega sem það er ekki bannað í lögum. Ef stjórnvöld, framkvæmdarvaldið, ráðherrar, sóttvarnayfirvöld, ætla að gera eitthvað sem takmarkar þau réttindi fólks þá verða þau að hafa heimild til þess í lögum og fylgja lögum við að framfylgja því.

Eins og kemur fram í álitsgerðinni þarf stjórnvald sem skerðir frelsi eða mannréttindi borgaranna, sem er að gerast, í þágu brýnna almannahagsmuna, sem eru að sjálfsögðu núna til staðar, að vega við framkvæmdina þá almannahagsmuni, í þessu tilfelli líf og heilsu, sem mæla með skerðingunni, gegn þeim hagsmunum sem skerðingin bitnar á. Það eru mannréttindi, frelsi og fjárhagur. Þau mannréttindi geta síðan líka haft neikvæð áhrif, við vitum það, á líf og heilsu fólks. Þessi mynd er ekki enn nógu skýr. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir áframhaldandi traust á núverandi aðgerðum að sú mynd verði gerð skýrari og aðgengilegri almenningi. Við sáum í upphafi faraldursins hvað við fengum skýra mynd af því hver staðan var, hvernig faraldurinn þróaðist, hvernig hann hafði áhrif á líf fólks, hve margir voru lagðir inn o.s.frv. Það skapaði traust og það réttilega. Ég held að það sé grundvöllur fyrir trausti að þessi heildarmynd um hvað er á vogarskálunum varðandi réttindi okkar, líf, heilsu, önnur mannréttindi, frelsi, fjárhag, sé skýr og gerð aðgengileg almenningi.

Við erum komin rúmlega hálft ár inn í faraldurinn og eigum mögulega eftir ár, kannski tæpt ár. Lykilatriði til þess að aðgerðir verði farsælar er þetta réttmæta traust. Almenningur þarf að vera vel upplýstur um réttindi sín og rök stjórnvalda fyrir því að skerða þau, eins og ég nefndi. Sóttvarnayfirvöld þurfa að gæta ýtrustu varfærni og fara ekki umfram sínar víðtæku heimildir við skerðingu réttinda. Mistök eru alltaf gerð þegar ákvarðanir eru teknar hratt, það er skiljanlegt, svo yfirvöld þurfa að bregðast hratt og vel við ábendingum um brotalamir með upplýstri umræðu. Forsætisráðherra lét gera þessa álitsgerð sem er mjög gott og þarft og þríeykið hefur kallað eftir upplýstari umræðu og nefnir m.a. í aðsendri grein í Fréttablaðinu á fimmtudaginn að mikilvægt sé að mismunandi sjónarmiðum sé velt upp þegar er um að ræða takmarkanir á borgaralegum réttindum. Þau nefna að bannfæring gagnrýnisradda sé aðeins til þess fallin að sundra þeirri dýrmætu einingu sem við þörfnumst á þessum einstæðu og erfiðu tímum. Upplýst umræða er bæði grundvöllur farsælla sóttvarnaaðgerða og grundvöllur þess að við verndum borgararéttindi á þessum tímum.

Önnur stjórnvöld en sóttvarnayfirvöld þurfa að vanda sig við mótvægisaðgerðirnar svo minnka megi skaðann af sóttvarnaaðgerðum, t.d. á lýðheilsu fólks, geðheilbrigði o.s.frv. Það verður allt að vera inni í myndinni og það verður að vera stoð undir þessa heildstæðu mynd sem ég nefni um það hvaða réttindum við erum að fórna fyrir önnur. Alþingi þarf að fara strax í að laga sóttvarnalögin. Lagaheimildir eru ekki nógu skýrar, við höfum heyrt það frá mjög mörgum sérfræðingum, m.a. Páli Hreinssyni, og Alþingi þarf að sinna sínu virka og málefnalega eftirliti með framkvæmdarvaldinu. Það er stjórnarskrárbundin skylda þingmanna, þingflokka, þingnefnda og Alþingis í heild.

Ég endurtek meginregluna sem ég myndi hafa sem grundvöll fyrir þessari álitsgerð, grundvöll fyrir því sem við erum að horfa á af því að við erum að gera þetta allt saman, að borgarar mega gera allt sem þeir vilja svo framarlega sem það er ekki bannað í lögum en stjórnvöld mega aðeins takmarka réttindi þeirra ef þau hafa heimild til þess í lögum og því er framfylgt samkvæmt lögum. Þá verða stjórnvöld að fylgja stífum lögum um góða stjórnsýslu. Þau þurfa að gæta að lögmæti, réttmæti, jafnræði og meðalhófi. Ég ætla að fara dýpra í þá þætti í síðari ræðu á eftir en ég er búinn að fara yfir einn þeirra þátta sem er þessi: Í þágu brýnna almannahagsmuna má skerða frelsi og mannréttindi borgaranna en þá verður að vega þá almannahagsmuni sem mæla með skerðingunni, líf og heilsu, gegn öðrum sem er fórnað. Þarna eru mannréttindi, frelsi og fjárhagur fólks.

Ég tel að aðeins ef þeirri meginreglu er fylgt, og við sjáum að henni sé fylgt, okkur finnst að henni sé fylgt, getum við skapað það traust sem við þurfum til að fara sem farsælast í gegnum þennan faraldur og út úr honum. Ég kem svo inn á dýpri nálgun á þessari meginreglu sem stjórnvöld verða að fylgja til að mega skerða réttindi í síðari ræðu.